Tilkynnt hefur verið að átta stórir laxaframleiðendur í Alaska, sem standa að þremur fjórðu allrar laxaframleiðslu í ríkinu, muni ekki óska eftir endurnýjun á MSC-vottun sinni þegar hún rennur út í október í haust. Talsmaður þeirra segir að fyrirtækin hafi ákveðið að nú sé tími til kominn að beina kröftum sínum og fjármunum í markaðsstarf á breiðari grundvelli, að því er fram kemur í frétt á vefnum Seafoodsource.com.
Fyrirtækin sem um ræðir eru Trident Seafoods, Icicle Seafoods, Ocean Beauty Seafood, Peter Pan Seafoods, Alaska General Seafoods, E & E Seafoods, Kiwipak Fisheries og North Pacific Seafoods.
Veiðar á alaskalaxi fengu MSC-vottun árið 2000 og hún var endurnýjuð árið 2007. Aftur var komið að endurnýjun nú í haust.
Laxveiðar í Alaska eru mjög umfangsmiklar. Árið 2010 nam laxaaflinn um 363 þúsund tonnum. Laxinn er veiddur í net, nót, troll og fleiri veiðarfæri. Þrír fjórðu ferska og frysta aflans fara til Japans en afgangurinn er soðinn niður einkum fyrir markaði í Evrópu og Bandaríkjunum.
Veiðar á alaskaufsa eru einnig MSC-vottaðar en sú vottun kemur ekki til endurnýjunar fyrr en árið 2015. Talsmaður þeirra segir á áðurnefndum sjávarútvegsvef að hann búist við að alaskaufsinn verði áfram í MSC-vottun eða þar til sá tími komi að taka þurfi ákvörðun um endurnýjun.