Mottumars, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum, er formlega hafið í áttunda sinn.

Átakið var kynnt um borð í ísfiskstogaranum Helgu Maríu í Reykjavíkurhöfn, en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, eru aðalstyrktaraðili Mottumars í ár og næstu tvö ár.  Jakob Jóhannsson, yfirlæknir geislameðferðar krabbameina á Landspítalanum og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands, ávarpaði gesti í brúnni á ísfiskstogaranum Helgu Maríu, frá HB Granda, og sagði frá því að í ár er sérstök áhersla lögð á umræðu og fræðslu um leit að ristilkrabbameini og er slagorð átaksins „Hugsaðu um eigin rass“.

Mottumars.
Mottumars.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Eins og sést á myndinn hefur myndarleg motta verið máluð framan á brúna á Helgu Maríu AK. Framan við hana má sjá forsvarsmenn framtaksins ásamt heilbrigðisráðherra.

Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá körlum hér á landi en á hverju ári greinast rúmlega 70 karlar með þetta krabbamein.  Nýgengi hefur verið að aukast, einkum hjá körlum en ristilkrabbamein er eitt af fáum krabbameinum sem unnt er að greina á forstigi og byrjunarstigi.  Með skipulagðri leit má því fækka sjúkdómstilfellum verulega og bjarga mannslífum. Mikilvægt er því að þekkja einkennin og þeir sem eru 50 ára og eldri ættu að ræða við sinn lækni um leit að ristilkrabbameini.

Sjá nánar á vef SFS og einnig gamansamt myndband átaksins HÉR