Móttaka á þorski í Sogn og Fjordane í Noregi er á góðri leið með að stöðvast. Ástæðan er alger brestur í áframsölu til saltfiskverkenda í Sunnmøre, að því er fram kemur í fréttum norska ríkissjónvarpsins.

Ef þorkveiðin eykst frá því sem nú er getur það endað með hlutkesti um það hverjir fái að landa og hverjir ekki. Jafnvel er talið að aðeins 3 til 5 af 15 bátum fái að landa í bænum Raudeberg.

Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar er nóg framboð af ódýrum þorski víða frá Norður-Noregi og hins vegar gengur Norðmönnum illa að selja þorskafurðir til ESB-landanna. Einkum eru það saltfiskverkendur í Noregi sem halda að sér höndunum. Erfiðlega hefur gengið að selja salfisk til Portúgals en fleiri saltfiskmarkaðir hafa einnig gefið eftir.