Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga telur ólíðandi að atvinnuöryggi félagsmanna sé háð illa ígrunduðum ákvörðunum stjórnvalda, eins og stöðvun úthafsrækjuveiða frá 1. júlí í sumar sé dæmi um, að því er fram kemur á ruv.is..
Í ályktun stjórnarinnar er bent á að 120 manns vinni við rækjuveiðar og rækjuvinnslu á Vestfjörðum. Þar segir ennfremur að inngrip stjórnvalda í grunnatvinnuveg Vestfirðinga hafi í gegnum tíðina kippt fótunum undan heilu byggðarlögunum og valdið óbætanlegum skaða í sumum tilfellum.
Bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ höfðu áður mótmælt ákvörðun stjórnvalda um stöðvun rækjuveiða og sent frá sér bókun þess efnis.
Í samatali við vefútgáfu Bæjarins besta, fréttablaðs á Vestfjörðum (bb.is), segir Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að ákvörðun ráðherra um að stöðva veiðar á úthafsrækju væri samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en stofnunin mælti með 5000 tonna aflamarki, segir ennfremur á www.bb.is og www.ruv.is