Ólafur Óskar Stefánsson hefur verið ráðinn skipstjóri Sighvats Bjarnasonar VE. Hann tekur við skipinu af Valdimar Gesti Hafsteinssyni sem verður skipstjóri á Huginn VE á móti Magnúsi Jónassyni sem áður var skipstjóri á Ísleifi VE. Verði af loðnuveiðum í vetur færir Valdimar sig aftur yfir á Sighvat Bjarnason og verður skipstjóri á móti Ólafi Óskari
Þessi uppstokkun á skipum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum kemur í kjölfar uppsagna fyrrum skipstjórnarmanna Hugins, þeirra Gylfa Viðars og Guðmundar Inga Guðmundssona eftir að akkeri skipsins féll útbyrðis 17. nóvember sl., dróst eftir botninum og skemmdi einu neysluvatnslögnina til Eyja.
Fordæmalaus brottrekstur
Vinnslustöðin samdi um starfslok Gylfa Viðars og Guðmundar Inga skömmu eftir atburðinn og hefur Skipstjóra- og stýrimannafélagið Varðandi í Vestmannaeyjum lýst yfir vanþóknun yfir viðbrögðum framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar.
Í ályktun frá félaginu segir að „aðalfundur og stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi mótmælir harðlega og lýsir yfir vanþóknun á hendur framkvæmdastjóra og hluta stjórnar Vinnslustöðvarinnar, vegna fordæmalauss brottreksturs skipstjórnarmanna á Huginn VE 55“.
„Teljum við að með þessum hætti sé vegið að mönnum og þeim refsað áður en til sjóprófa og dóma komi. Ef fram fer sem horfir teljum við að um prófmál sé að ræða þar sem útgerð geti varpað allri ábyrgð vegna óhappa eða slysa á hendur skipstjórnarmönnum þó svo að jafnvel geti verið um vanrækslu útgerðar á viðhaldi skips að ræða. Með þessu er vegið að starfsöryggi og heiðri félagsmanna okkar.“
Ályktun Verðanda sætir furðu
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni ályktunar Verðanda.
Í yfirlýsingunni segir að skoðun Vinnslustöðvarinnar á upptökum úr öryggismyndavélum hafi leitt í ljós að öryggisloki (keðjustoppari) akkeris Hugins, sem kemur í veg fyrir að akkeri falli ef bremsa á spili er losuð, hafði verið opinn í sex vikur áður en óhappið varð í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn 17. nóvember 2023. Þessi búnaður, þ.e. öryggisloki/keðjustoppari, hafi verið prófaður eftir atvikið. Reyndist hvoru tveggja í fullkomnu lagi og héldu akkeri á sínum stað. Réttur frágangur og eftirlit með öryggisbúnaði um borð í skipi er á ábyrgð skipstjóra hverju sinni.
„Í ljós hefur komið að um var að ræða annað skiptið á tveimur árum þar sem akkeri tapaðist af Hugin. Á því atviki hafa hvorki fengist skýringar né hvort og þá hvernig brugðist hafi verið við, til að mynda með reglulegu eftirliti til að fyrirbyggja að svona nokkuð endurtæki sig.“
„Sjópróf vegna atviksins eru ákveðin 30. janúar 2024. Sjópróf eru skýrslutökur fyrir dómi til að varpa ljósi á aðdraganda og afleiðinga atviksins sem tjónþolar hafa óskað eftir. Sjópróf koma því ekki til álita þegar fjallað er um afleiðingar á borð við þær hvort menn haldi störfum sínum eða ekki.
Mat mitt sem framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar hf. var að í aðdraganda atviksins hefðu skipstjórnarmenn Hugins ekki rækt skyldur sínar með viðunandi hætti, eins og að framan er lýst. Því var ekki annað verjandi en að gera starfslokasamninga þá. Við það mat stend ég.
Stjórn Verðanda hefur ekki óskað eftir fundi með mér eða aflað upplýsinga frá Vinnslustöðinni hf. vegna atviksins. Í því ljósi sætir þessi ályktun félagsins furðu. Ég er reiðubúinn til að hitta stjórn Verðanda hvenær sem er og fara yfir málið.“
