Útflutningur á óunnum fiski hefur aukist um 80 prósent fyrstu níu mánuði ársins miðað við sama tíma á síðasta ári. Framkvæmdastjóri G. Run segir hluta útflutningsins á gráu svæði.

„Ýmsum þykir þessi skýrsla og svör ráðuneytanna ekki alveg mæta þeim þeim spurningum sem nefndin lagði upp með,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

Nefndin hefur undanfarnar vikur fundað nokkuð þétt til að fara yfir skýrslu frá Háskólanum á Akureyri um útflutning á óunnum fiski í gámum. Skýrslan var unnin fyrir nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytið, en einnig hefur nefndin haft til skoðunar samantekin svör fimm ráðherra um sama efni.

Skýrslan og svörin frá ráðuneytunum eru viðbrögð við spurningum nefndarinnar frá í desember 2019, en þá hafði nefndin fjallað ítarlega um aukningu sem orðið hefur á útflutningi á óunnum fiski. Ráðuneytin áttu að skila svörum sínum 1. maí síðastliðin en þau voru fyrst að berast nefndinni nú fyrir stuttu.

Mikið af upplýsingum kemur þar fram. Í svörum ráðuneytanna er bent á að útflutningur á óunnum fiski í gámum hafi verið „sveiflukenndur gegnum árin, gæti það tengst ýmsum þáttum svo sem útflutningsálagi, gengi, mörkuðum og fleiru.“

Helstu niðurstöður greiningar varðandi þróun útflutnings á óunnum fiski í gámum til vinnslu erlendis séu þær „að magn á útfluttum óunnum fiski í gámum á árunum 2018 og 2019 nemur um helmingi þess magns sem fór í gegnum fiskmarkað á sama tíma. Árið 2017 var magnið talsvert minna.“

Lilja Rafney segir framboð á fiskmörkuðum reyndar vera svipað þrátt fyrir þennan útflutning á óunnum fiski, „en hluti þess fisks sem fer í gegnum fiskmarkaði í dag fer bara beint óunninn úr landi og býðst ekki kaupendum innanlands að bjóða. Það eru fyrirtæki sem hafa verið að vaxa hér á höfuðborgarsvæðinu, sem hvorki tengjast útgerð eða fiskvinnslu, umboðsfyrirtæki að kaupa af mörkuðum beint og selja beint út og selja beint út til ýmissa aðila.“

Eins og fram kom í umfjöllun Fiskifrétta 5. nóvember síðastliðinn eru ýmsir farnir að hafa áhyggjur af því að Ísland verði hráefnisuppspretta fyrir fiskvinnslu í Evrópu.

Vísbendingar óstaðfestar

„Innlendum aðilum stendur ekki til boða að bjóða í þennan fisk einu sinni,“ segir Lilja Rafney.

Ýmsar vísbendingar hafi komið fram „um að það sé verið að fara með hráefnið til landa eins og Póllands þar sem eru miklu lægri laun og ekki samkeppnishæft umhverfið.“

Engar staðfestingar hafi hins vegar fengist á því hvert þessi fiskur fer.

„Það virðist ekki vera hægt að rekja það nákvæmlega og það er kannski það sem mönnum finnst vanta í þessi gögn, að það sé farið betur ofan í saumana á þessu. Okkur finnst í nefndinni svolítið að það sé mörgum spurningum ósvarað sem hefði mátt fara dýpra ofan í.“

Mikil aukning á þessu ári

Hún segir að mögulega geti sveiflur á gengi skýrt eitthvað af þessu. Eins geti munað um það þegar stór aðili eins og Brim hefur verið að endurnýja fiskvinnsluna hjá sér og þurfi þá mögulega að senda meira út óunnið á meðan. Það hafi þó verið að gerast á þessu ári og sé því ekki inn í þessum tölum, sem ná bara til ársins 2019.

„Við fengum samt tölur frá Hagstofunni líka yfir fyrstu níu mánuði þessa ára. Þá kom í ljós að það var 80 prósent meiri sala á óunnum þorski samanborið við fyrstu níu mánuði ársins í fyrra.“

Þá segir hún að nefndin sé að móta möguleg viðbrögð, en hver þau gæti orðið sé erfitt að segja til um enn sem komið er.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur sagt á þingi að lausnir á þessum vanda liggi ekki á lausu. Hann hafi að minnsta kosti ekki komið auga á þær.

Sumt á gráu svæði

„Þessi útflutningur á óunnum fiski sem ekki fer yfir neinn markað. Ég skil hann ekki almennilega,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.Run í Grundarfirði. Auk þess að vera útgerðarmaður er hann jafnframt stjórnarformaður Fiskmarkaðs Íslands, þannig að hann þekkir þessi mál frá fleiri en einni hlið.

Hann segir óunninn fisk geta farið tvær meginleiðir í gegnum fiskmarkaði, og báðar séu þær fullkomlega eðlilegar.

Þriðji kanallinn

„Fiskurinn sem ég kaupi af mínu skipi hann fer hérna inn í vinnslu, og það er ákveðinn samningur sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur eftirlit með. Hins vegar er það hinn fiskurinn sem fer á löggiltan uppboðsmarkað. Síðan eru menn að nota einhvern þriðja kanalinn, og það finnst mér vera á gráu svæði.“

Hann segist ekkert geta sagt til um það hvort eitthvað af þessum fiski fari til vinnslufyrirtækja erlendis í eigu íslenskra fyrirtækja.

„Maður heyrir talað um það, en ég þekki það ekki. En það eru ansi sterkir eftirlitsaðilar með þessu sem eru sjómennirnir sjálfir. Þetta er þeirra kaup. Maður sér að það eru tíu þúsund tonn af óunnum karfa flutt úr landi. Það er þriðjungur af heildarkvótanum.“

Hann segir varla geta verið neinn skort á hráefni fyrir innlendar vinnslur, enda séu um og yfir 100 þúsund tonn seld á mörkuðunum á ári.

„Það ætti að duga,“ segir Guðmundur, en tekur fram að launin hjá fiskverkafólki séu orðin það há að smærri fyrirtæki eigi erfitt með að standa undir því.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 3. desember sl.