Ekki er til sérstök skilgreining á „hafverndarsvæði“ í íslenskum lögum, en mörg svæði í hafi og við strendur landsins njóta verndar. Þar koma til náttúruverndarlög, lög um vernd Breiðafjarðar og um stjórn fiskveiða.

Lög um vernd Breiðafjarðar voru sett árið 1995. Ákvæði laganna taka til allra eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins frá Hrafnanesi á Barðaströnd að Búlandshöfða á Snæfellsnesi.

25 svæði friðlýst

Friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum sem taka til hafsvæða að öllu eða að hluta eru um 25 talsins, en engin þeirra ná aðeins til svæða í hafi utan tvö svæði í Eyjafirði, sem eru friðlýst til að vernda hverastrýtur á hafsbotni. Hin svæðin ná til eyja og strandlengju, en hvergi langt út frá strönd.

Sá ráðherra sem fer með umhverfis- og auðlindamál skal hafa samráð við ráðherra sjávarútvegsmála varðandi friðlýsingar í hafi sem geta haft áhrif á nýtingu fiskistofna eða annarra lifandi auðlinda hafsins eða hafsbotnsins. Allmörg svæði innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands njóta verndar fyrir veiðum með einu eða fleiri veiðarfærum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Nokkur þessara svæða eru lokuð ótímabundið allt árið um kring, annaðhvort fyrir öllum veiðum eða tilteknum veiðiaðferðum. Í þennan flokk falla tíu kórallasvæði fyrir sunnan Ísland sem eru friðuð.

Heimild: Alþingi.is - Svar við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um hafverndarsvæði.