Það var gott hljóðið í Sigvalda Páli Þorleifssyni, skipstjóra á Sigurbjörgu ÁR, nýjum ísfisktogara Ísfélagsins hf., sem nú var í sinni 16. veiðiferð. Enda fiskast vel í Þverálnum og komið í yfir 200 kör strax á öðrum sólarhringi veiða. Talsvert hefur samt verið um bilanir á millidekki en það var svo sem ekki óviðbúið í nýju skipi.

„Fyrsti túrinn var í byrjun október og við erum núna í okkar sextánda túr. Við höfum reyndar oft þurft að fara í land út af bilunum. Það er enn þá verið að stilla af í millidekkinu. Það hafa bara verið bilanir í millidekki en ekki annars staðar og þetta er eitthvað sem við máttum alveg eiga von á ekki síst þegar svo mikil sjálfvirkni er til staðar,“ segir Sigvaldi.

Sigvaldi Páll Þorleifsson skipstjóri. FF MYND/EYÞÓR
Sigvaldi Páll Þorleifsson skipstjóri. FF MYND/EYÞÓR

Um borð er flokkari og lestin er nánast alsjálfvirk. Þarna eru því margir skynjarar og alls kyns rafeindabúnaður sem þarf að stilla af. Fimmtán eru í áhöfn Sigurbjargar ÁR sem er gerð út frá Vestmannaeyjum og skipið hefur landað þar og á Þórshöfn einnig. Löndunarstaður hverju sinni ræðst af aflasamsetningu og staðsetningu skipsins. Sigvaldi rær á móti Sigurði Konráðssyni, sem var síðast skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni VE. Sigvaldi hafði ekki tölu á þeim tonnum sem þeir hafa fisk að frá því að skipið fór í sinn fyrsta túr í byrjun október. En óhætt er að segja að skipið fari vel af stað þrátt fyrir minni háttar bilanir í tæknibúnaði á millidekki. Oft eru þetta stuttir túrar sem stjórnast af aflabrögðum og veðurfari fremur en föstum löndunardögum.

Oftast með tvö troll

„Við erum langoftast með tvö troll og það hefur gengið mjög vel. Það er nægur kraftur til að draga þau en þetta er stuttur bátur og ef það er mikil kvika getur verið erfitt að vera upp í veðrið með tvö troll í togi. En þetta er hörkusjóbátur og það fer vel um mannskapinn.“

Hann er að öðru leyti mjög ánægður með skipið. „Það hefur verið mokveiði hérna í góðum þorski. Meðalstærðin er í kringum 3 kíló og lítið hægt að kvarta yfir því. Við erum núna búnir að vera á veiðum í rúman sólarhring og komnir með í 200 kör.“ Ætla má að afli upp úr sjó á þessum rúma sólarhring sé því nálægt 74 tonnum miðað við 460 lítra kör og 20% íshlutfall.