Íslensk skip mega veiða um 7.380 tonn af þorski miðað við slægt í norsku lögsögunni í Barentshafi á þessu ári. Mokveiði hefur verið frá því veiðarnar hófust. Fimm íslensk frystiskip voru þar að veiðum í byrjun vikunnar. Eitt þeirra er Þerney RE, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

„Veiðin er mjög góð en veðrið hefur verið afspyrnuleiðinlegt síðustu vikuna. Við höfum fengið lægðirnar hingað ómengaðar, að því er virðist beint frá Íslandi,“ sagði Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE, í samtali við Fiskifréttir.

Kristinn sagði að skipin þyrftu aðeins að skammta sér afla í samræmi við vinnslugetuna um borð og láta reka á milli. Þeir taka um 3 hol á sólarhring. Misjafnt er hvað togað er lengi en trollið er varla meira en 4 til 10 tíma á sólarhring í sjónum.

Þetta er annar túr Þerneyjar í Barentshafið á þessu ári. Í fyrri túrnum veiddust rúm 1.350 tonn upp úr sjó. Veiðiferðin tók um 40 daga, þar af fóru 4 dagar í frátöf vegna bilunar. Aflaverðmæti var um 380 milljónir króna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.