Góð makrílveiði hefur verið hjá smábátum í Keflavík og Helguvík undanfarna daga. Útgerðakostnaðurinn er með minnsta móti því á stundum hafa menn ekki þurft að sækja út úr höfninni í Keflavík til fylla sig. Algengt er að menn landi fullfermi nokkrum sinnum yfir daginn. Halldór Ármannsson eigandi Guðrúnar Petrínu GK segir makrílinn vera átulausan með um 500 gramma meðalþyngd.
Halldór leggur upp hjá Nesfiski og var í löndunarstoppi þegar rætt var við hann þar sem mikill bolfiskafli hafði borist frá snurðvoðarbátum Nesfisks.
Alls hafa 43 smábátar hafið veiðar og er aflinn að nálgast 2.300 tonn.
Á sama tíma í fyrra var hann hins vegar 4.190 tonn af 40 bátum. Þá var helmingur þeirra kominn með yfir 100 tonn en nú aðeins 6 bátar sem náð hafa þeim afla.
Uppi í landsteinum
„Makríllinn hefur verið að veiðast alveg upp við landsteina og jafnvel inni í höfninni í Keflavík. Það hefur líka veiðst vel í Helguvík en ólíkt því sem var í fyrra hefur lítið orðið vart út af Sandgerði. Menn hafa því lítið verið að sækja þangað meðan svo stutt er í mikinn fisk upp við landsteinana,“ segir Halldór.
Hann segir veiðina ólíka því sem var í fyrra. Bæði byrji hún seinna en þá og sömuleiðis sé fiskurinn umtalsvert stærri. Aðspurður hvort það þýddi ekki aukin verðmæti sagði hann svo ekki vera.
45-50 kr. fyrir kílóið
Menn hafa verið að fá þetta á bilinu 45-50 krónur fyrir kílóið af makríl. Meðalverð á Íslandi var 80-90 krónur árið 2015 en 62 krónur 2016. Halldór segir það umhugsunarefni hvers vegna Norðmenn fái svo miklu hærra verð fyrir fiskinn en Íslendingar en skýringin gæti að hluta til verið sú að þeir hefja veiðar mun síðar og fiskurinn þá ekki eins bráðfeitur og hér og átulaus auk þess sem Norðmenn hafi sinnt markaðsstarfinu betur í stað þess að reiða sig að mestu á Rússlandsmarkað.
Minni útgerðarkostnaður
„Það er reyndar mikið umhugsunarefni hvernig verðmyndun er á makríl og við skiljum það eiginlega ekki. En það er auðvitað vitað að sölubann í Rússlandi hefur mikil áhrif á verðið því Rússar tóku það mikið af makríl til sín. Svo bætir ekki heldur úr skák gengisþróunin á íslensku krónunni. En þetta stendur undir sér með mikilli veiði því fæstir eru enn að glíma við stofnkostnaðinn sem fylgir veiðunum og útgerðarkostnaðurinn er umtalsvert minni þegar svo stutt er að sækja fiskinn. Að því leyti eru veiðarnar líka þjóðhagslega hagkvæmar. Margir eru líka að veiða í beitu. Makríll er besta fáanlega beitan og hentar allt árið ólíkt síld og smokkfiski.,“ segir Halldór.
Veiðin var kominn upp í um 120 tonn hjá Halldóri og félagi hans, Birgi Þór Guðmundssyni skipstjóra, þegar rætt var við hann í síðustu viku, en veiðarnar hófust eftir verslunarmannahelgi. Meðalþyngdin er sem fyrr segir um 500 grömm en var í fyrra 400-450 grömm. Í fyrra hófust þeir félagar handa strax í byrjun ágúst og þann mánuð fiskuðu þeir 170 tonn. Enn var talsvert eftir af mánuðinum og áætlaði Halldór að þegar upp væri staðið gæti aflinn verið kominn upp í á bilinu 150-160 tonn.