Lítil sem engin makrílveiði er í Síldarsmugunni við mörkin á norsku lögsögunni en á sama tíma mokveiðir Beitir NK norsk-íslenska síld uppi við landsteinana við Austurland.
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, hafði verið í tvo sólarhringa í Smugunni án þess að verða svo mikið sem var við makríl. Skipið hafði verið við síldveiðar og landaði þá 800 tonnum fyrir síðustu helgi. En talsvert er eftir af útgefnum makrílkvóta og menn freista þess að ganga á hann í Smugunni en veiðin hefur verið lítil undanfarna daga.
Fjöldi annarra skipa er í Smugunni, jafnt íslensk, grænlensk, rússnesk og færeysk. Sömu sögu var að segja af öðrum skipum. Veiði lítil sem engin.
Ballið búið?
„Við erum búnir að vera hérna í tvo daga og það er akkúrat ekki neitt að frétta. Það hefur nákvæmlega engin veiði verið hérna í tvo daga. Hér er fullt af skipum og enginn að fá neitt. Þetta er hræðilega dapurt. Þetta endar alltaf einhvern tíma. Mjög sennilega er makrílinn genginn inn í norsku lögsöguna og þá er ballið búið. Það fer alla vega að líða að lokum þessarar makrílvertíðar. Við verðum hérna áfram einhverja daga og sjáum til,“ segir Gísli.
Hann sagði að allt hefði verið vaðandi í síldi úti fyrir Austurlandi fyrir síðustu helgi og viðbrigðin því mikil í rólegheitunum í Smugunni. Heimstímið tekur einn og hálfan sólarhring.
Vilja ganga á makrílkvótann
Börkur NK var einnig í Síldarsmugunni. Hálfdán Háldánarson skipstjóri tók undir með Gísla og sagði lítið um makríl á svæðinu. Veiðin sé mjög gloppótt.
„Það er ekkert óvenjulegt við þetta. Hann hverfur oft um þetta leyti og lætur sig hverfa yfir í norsku lögsöguna. Það gæti alveg verið að þetta sé á síðustu metrunum,“ segir Háldán.
Börkur var líka í bullandi síldveiði í síðasta túr út af Austurlandi en sem fyrr segir halda menn í vonina að ganga á makrílkvótann og reyna því eitthvað áfram fyrir sér í Síldarsmugunni.
520 tonn í holi
Sturla Þórðarson skipstjóri var í mokveiðinni úti fyrir Austurlandi. „Það er töluvert af síld hérna. Við komum á miðin snemma í morgun [þriðjudagsmorgun] og búnir að taka eitt hol sem var 520 tonn. Við höfum síðan bara tekið því rólega því við eigum ekki að landa fyrr en á morgun. Menn vilja ekki að við komum með fullfermi upp á gæðin að gera. En það mesta sem við höfum komið með úr einum túr voru 3.212 tonn af kolmunna eitt árið. Síldin er allt önnur vara. Þetta er held ég mjög góð síld sem við höfum verið að fá,“ segir Sturla.
Ekkert annað skip var við veiðar á þessum slóðum. Sturla reiknaði ekki með að farið yrði aftur á síldveiðar því enn ætti eftir að veiða meira af makríl. Hugsanlega séu þetta því síðustu dagar makrílveiða á þessu ári.