Í kortlagningu Íslenska sjávarklasans á þeirri starfsemi sem tengist nýtingu þara hérlendis sést að nú þegar eru 15 fyrirtæki sem koma að þessari starfsemi á einhvern hátt. Sjávarklasinn ályktar að með því að auka fjárfestingar og rannsóknarstyrki á þessu sviði geti Ísland verið í hópi forystuþjóða í fullnýtingu þara.
Milljarður tonna
Þörunganýting og -framleiðsla nam um 36 milljónum tonna árið 2018 og er talin meðal þeirra sjávarauðlinda sem hefur mest tækifæri til vaxtar í heiminum. Má nefna í því samhengi að árleg frumframleiðsla plöntusvifs innan 200 mílna lögsögu Íslands er talin um einn milljarður tonna.
Það er samdóma álit sérfræðinga, sem fjalla um þara, „að enn sé langt í land þar til alþjóðlegur heilsu- og lyfjaiðnaður hefur náð að nýta sem nokkru nemi þau jákvæðu heilsueflandi efni sem þarinn inniheldur. Þá eru einnig fjölmörg tækifæri ónýtt þar sem nýta má þessa afurð í baráttu gegn mengun og skaðlegum efnum í náttúrunni,“ segir í greiningu Sjávarklasans.
Nú þegar eru mörg dæmi um fyrirtæki og starfsemi á þessu sviði hérlendis.
Samkvæmt kortlagningu Sjávarklasans eru 15 fyrirtæki á Íslandi sem eru að nýta þara á einhvern hátt og velta þeirra, sem tengist þara er áætluð um fimm milljarðar króna á árinu 2019. Það fyrirtæki sem á lengsta sögu á þessu sviði hérlendis, og er enn starfandi, er Þörungaverksmiðjan Thorverk á Reykhólum. Thorverk framleiðir gæðamjöl úr þara og þangi. Mörg minni fyrirtæki eru að framleiða ýmis matvæli og krydd úr þara; Fisherman, Saltverk, Íslensk hollusta, og Seaweed Iceland. Þá eru nokkur fyrirtæki starfandi hérlendis eins og Algae Náttúra, Taramar, og fyrirtækið Zeto, sem hafa nýtt þara frá Thorverk til framleiðslu á húð- og heilsuvörum. Taramar og Zeto hafa bæði þróað lífvirk efni úr þara sem húðvörur. Fyrirtækið Marinox hefur jafnframt þróað húðvörur úr lífvirkum efnum þara.
Margt á teikniborðinu
Segir í greiningunni að engin ástæða sé til þess að ætla annað en allir landshlutar geti byggt upp starfsemi tengda þara þar sem þaraskóga má finna um allt land. Má nefna að mikill áhugi er á því að þang og þari verði nýtt í fiskeldi en umtalsverðar rannsóknir eiga sér nú stað á því sviði.
„Nýsköpun í tengslum við hvers konar þróun á heilsuefnum og lífvirkum efnum úr þessum afurðum hérlendis er þegar komin lengra en hjá mörgum löndum í kringum okkur. Þá eru einnig tækifæri í þróun þara til að nýta í ýmsar umbúðir og fatnað í stað annarra efna sem eru skaðvænlegri fyrir umhverfið.“
Fréttin birtistu upphaflega í Nýsköpunarblaði Fiskifrétta 18. febrúar sl.