Sjávarakademían er farin aftur af stað í húsi Sjávarklasans í Reykjavík. Þar eru þjálfaðir frumkvöðlar á sviði haftengdrar nýsköpunar.

Þetta er í þriðja sinn sem efnt er til Sjávarakademíunnar, en hún er samstarfsverkefni Fisktækniskólans og Sjávarklasans. Boðið er upp á nám í eina önn og áhersla sem fyrr lögð á nýsköpun, sjálfbærni og tækifæri í bláa hagkerfinu. Aðsókn í námið verið góð og færri nemendur hafa komist að en vildu.

„Eftir að hafa keyrt tvær annir höfum við fengið um 150 umsóknir og útskrifað 22 nemendur,“ segir Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskólans.

Námskeiðið verður með nýju sniði núna og segir Ólafur Jón að alltaf sé verið að leita að leiðum til að gera betur. Þar sé skólinn í sömu stöðu og frumkvöðlarnir sem koma til náms. „Við vildum huga meira að fólki sem væri í vinnu eða jafnvel í öðru námi og gæti tengt námið við það sem viðkomandi væri að gera. Oft er auðveldara að komast frá í stuttar námslotur, fyrir utan það hvað það er þægilegt að læra þannig. Við tökum sem sagt stuttar áherslulotur þar sem sérfræðingar í hverju málefni gefa innblástur og leiðsögn en svo heldur fólk áfram að vinna verkefnið þess á milli.“

Framtíðin

Hann segir engan vafa leika á því að framtíðin liggi í tækninámi hvers konar.

„Tækifærin í nýsköpun, þróun nýrrar tækni og vinnsluaðferða og hækkun gæðaviðmiða í vinnslu haftengdra auðlinda eru stórkostleg,“ segir Ólafur. „Vænta má að á þessu sviði atvinnulífs horfum við fram á gríðarlegan vöxt á næstu árum og áratugum. Lykilatriði til að gera framtíðarþróun mögulega er að búa yfir vel menntuðu starfsfólki á öllum sviðum greinanna.“

Náminu í haftengdri nýsköpun er skipt upp í fyrirlestra, verkefna- og teymisvinnu ásamt heimsóknum í nýsköpunarfyrirtæki.

„Námið höfðar til fólks á öllum aldri óháð kyni, sem hefur frumkvæði og vilja til að taka þátt í nýsköpun og uppbyggingu fyrirtækja innan hins stórkostlega fjölbreytta bláa hagkerfis.“

Sprotar

Hann segir að nokkrir nemendur hafi verið í eigin rekstri áður en námið hófst. Þeir hafi getað nýtt sér námið í að styrkja sig í sínum rekstri. Aðrir nemendur hafi komið með hugmynd og gert hana að veruleika.

Ólafur Jón og nefnir dæmi af Örnu „sem er menntaður fatahönnuður, fann leið til að hreinsa fjörurnar og nýta gömlu netin í fallega tískuvöru“ og Sögu „sem bjó til húðvörur úr þara“ og Benoný „sem ákvað að setja uppsjávarfisktegundir í nýstárlegan búning og þannig girnilegri fyrir neytendur.“

Hann bendir á að innan bláa hagkerfisins hafi þó nokkuð mörg fyrirtæki verið lítil nýsköpunarfyrirtæki til að byrja með en séu nú orðin risastór. Þar megi nefna Marel, Curio og Völku, sem nú eru reyndar runnin saman í eitt. Ennfremur Kerecis, Taramar, Marine Collagen og fjölmörg önnur.

„Tískufyrirtæki eins og 66°N spratt t.d. upp úr haftengri grein þar sem fyrirtækið byggðist á sjóklæðagerð. Þar er auðvitað okkar ósk að mörg slík spretti upp úr þessu frábæra námi í framtíðinni.“