Hvítfiskstofnar í heiminum gætu vaxið um 25%, eða um fimm milljónir tonna, fram til ársins 2020 ef það tekst að bæta stjórnun veiða. Samtökin „Sustainable Fisheries Partnership“ hafa reiknað þetta út eftir greiningu á stjórn veiða á um 77% af villtum fiski. Um er að ræða 51 stofn og 13 tegundir í Atlantshafi og Kyrrhafi. Frá þessu er greint í Fiskeribladet/Fiskaren.
Í greiningu samtakanna er fiskveiðistjórnuninni skipt í þrjá flokka: góð, miðlungi og slæm. Um 52% heimsaflans eru fiskstofnar í fyrsta flokki og þar hafa stofnarnir stækkað um 11% milli áranna 2013 og 2104. Hér er um að ræða alaskaufsa, með 21,5% aukningu, þorsk í Barentshafi með 16,4%, lýsing í norðanverðu Kyrrahafi með 4,8% og íslenska þorskinn með 3,6%.
Fiskveiðar sem er miðlungi vel stjórnað skila um 38,6% af heimsafla í hvítfiski. Í þessum flokki hafa stofnarnir stækkað um 1,1% milli áranna 2013 og 2014. Loks gefa fiskstofnar, þar sem veiðum er illa stjórnað, 9,3% heimsaflans. Þessir stofnar minnkuðu um 11,8% milli ára.
Fram kemur að 24 fiskstofnar, þar sem veiðum er verst stjórnað, eru aðallega þorskstofnar í NV-Atlantshafi.
Niðurstaða „Sustainable Fisheries Partnership“ er því sú að ef góðri stjórnun fiskveiða verði haldið áfram og stjórnun bætt á öðrum sviðum, bæði í flokkunum miðlungi og slæmt, megi ná því markmiði að stækka hvítfiskstofna um 25% fram til ársins 2020.