Fiskeldi er sá geiri matvælaframleiðslu sem vex hraðast á heimsvísu. Því er æ oftar haldið fram að eldi á fiski sé líklegasta leiðin til að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa til lengri framtíðar litið, og ný rannsókn á möguleikum til fiskeldis í sjó virðist renna stoðum undir þá fullyrðingu en geta heimshafanna til að fóstra eldisfisk er ævintýralega mikil – þegar litið er framhjá ýmsum umhverfislegum þáttum.
Mögulegt er að ala fimmtán milljarða tonna af fiski á heimsvísu, eða 100 falt það magn sem mannkynið neytir á ári. Þessi lygilega tala er niðurstaða hóps haffræðinga og sjávarlíffræðinga frá ýmsum bandarískum stofnunum, en hópurinn starfaði undir merkjum Kaliforníuháskóla – en að vinnunni komu líka náttúruverndarsamtökin Nature Conservancy og bandaríska rannsóknastofnunin National Oceanic and Atmospheric Administration, NOAA.
Ekki meira veitt
Niðurstaða rannsóknarinnar – Mapping the global potential for marine aquaculture – var birt í tímaritinu nature Ecology and Evolution um miðjan ágúst sýnir fyrst og síðast þá möguleika sem hafið hefur til matvælaframleiðslu, en rótin að rannsókninni er sú staðreynd að villtir stofnar heimshafanna eru fullnýttir nú þegar, og margir ofnýttir. Í huga rannsakenda er fiskeldi viðbragð við ógn veiða á villtum stofnum; eldi er aðferð til að vernda villta stofna á tímum þar sem auka þarf fæðuframboð verulega vegna fólksfjölgunar [sjónarmiðum um matarsóun er ekki haldið til haga í rannsókninni; að þörfin á aukinni framleiðslu sé orðum aukin og sóknarfærin felist í betri nýtingu þeirra matvæla sem þegar eru framleidd.]
Bæði eru mikil tækifæri til að auka fisk- og skelfiskeldi á vissum svæðum, og horfa rannsakendur helst til þeirra landa sem hafa aðgengi að hlýjum sjó. Indónesía er sérstaklega nefnd í því samhengi, en þar eru möguleikarnir taldir einna mestir bæði í fisk- og skelfiskeldi. Þó aðeins einn hundraðasti af hentugu hafsvæði landsins yrði nýtt þá dygði það til að framleiða 24 milljónir tonna á ári. Ef eldisafurðir yrðu nýttar einungis til innanlandsneyslu þá gætu Indónesar sexfaldað neyslu sína án innflutnings.
Plássið er ærið
Heilt yfir, eru 11,4 milljónir ferkílómetrar af hafsvæðum heimsins talin henta til eldis og 1,5 milljón ferkílómetra svæði til viðbótar til skelfiskeldis. Svo plássið er ærið, þó fjölmargir aðrir þættir takmarki möguleika eldismanna – svo sem stjórnun hafsvæða og efnahagsástand viðkomandi þjóða.
Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að ef fisk- og skelfiskeldi yrði aðeins þróað áfram á þeim svæðum sem aðstæður eru hagfelldastar þá væri engu að síður hægt að ala sama magn og veitt er úr villtum stofnum í dag – og það eldisrými myndi aðeins taka eitt prósent af hafsvæðum heimsins. Það er svæði sem er jafn stórt Michigan vatni, einu af vötnunum miklu í Norður-Ameríku og tilheyrir Bandaríkjunum.
Staðan í dag er sú að megnið af framleiðslunni kemur frá fáum löndum; Síle, Kína og Noregur eru þar stærst. Mestu möguleikarnir eru hins vegar í Ástralíu, Indlandi, Argentínu, Kenía og Indónesíu. Sum þessara landa sem mestu möguleikana hafa eru á meðal þeirra þar sem fólksfjölgun er hvað mest, sem höfundarnir telja nokkuð sem þjóðirnar ættu að hafa hugfast í sinni uppbyggingu í matvælaframleiðslu.
Vanmetið?
Stærsti hluti fiskeldis í heiminum í dag er á landi eða á strandsvæðum – en í skýrslunni virðist ekki tekið tilliti til þeirra gífurlegu möguleika sem fiskeldisþjóðir telja til eldis í úthafinu. Má til dæmis benda á hugmyndir Norðmanna um aukið laxeldi í sérstökum eldisstöðvum fyrir úthafið sem nú þegar hafa verið þróaðar og smíðaðar. Í skýrslunni segir að slík tækni sé skammt á veg komin, en rannsóknin er þó nýbirt. Ef öll áform stóru norsku fiskeldisfyrirtækjanna ganga eftir um laxeldi í úthafinu er ljóst að framleiðsla Norðmanna á eldislaxi, en hún var 1,2 milljónir tonna í fyrra, gæti tvöfaldast innan áratugar, en það er yfirlýst stefna norskra yfirvalda að þróa eigi fiskeldi á komandi áratugum. Er hugmynd stjórnvalda að fimmfalda framleiðsluna, en þó aldrei áður en helstu vandamál eldisins eru leyst – laxalúsin og slysasleppingar eru þar framarlega í röðinni. Þessum nýju eldisstöðvum er best lýst sem tækniundri – sem byggir að hluta á þeirri tækni sem hefur verið þróuð af olíufélögum við olíuvinnslu úti fyrir ströndum Noregs, og víðar.
Hins vegar voru svæði sem þegar eru nýtt í öðrum tilgangi ekki skoðuð af þeim sem að rannsókninni stóðu – hafsvæði þar sem olíuvinnsla er fyrir, friðuð svæði vegna sérstöðu lífríkis eða náttúru eða mikil skipaumferð.
Sjálfbærn
i
Takmarkanir vegna umhverfissjónarmiða eru rædd í þaula. Þar er minnst á ímyndarvanda eldis og mengun frá eldi sem mun, væntanlega, takmarka þróun eldis til lengri tíma litið. Geta Íslendingar samsamað sig við þá umræðu, en eldi á norskættuðum laxi er og mun verða þrætuepli. Nauðsyn þess að varlega sé gengið um gleðinnar dyr í uppbyggingu eru ítrekaðar – og að eldi eigi sér enga framtíð, eða sátt verði um það, nema hugmyndafræði sjálfbærni séu höfð hugföst.