Mjög góð kolmunnaveiði hefur verið suður af Færeyjum í þessum mánuði. Nú hefur veiðin færst austur fyrir eyjarnar enda er fiskurinn að ganga norður eftir. Um helgina landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 3.280 tonnum í Neskaupstað og Barði NK landaði 1.100 tonnum en hann kom til löndunar vegna bilunar í ljósavél. Að sögn Þorkels Péurssonar, skipstjóra á Barða, dregur venjulega úr kolmunnaveiðinni á þessum slóðum um mánaðamótin apríl-maí en hann segir að það sem af er mánuðinum hafi veiðin verið hreinasta veisla. Þegar þetta er ritað er Börkur NK á landleið með fullfermi og Beitir NK á miðunum. Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Tæp 30.000 tonn í apríl til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar

Í aprílmánuði hefur 21.300 tonnum af kolmunna verið landað í Neskaupstað og 7.800 tonnum á Seyðisfirði. Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði, segja báðir að hráefnið hafi verið afar gott enda komi skipin með það vel kælt að landi. Gott hráefni þýðir það jafnframt að afurðirnar eru góðar og hefur 4.800 tonnum af mjöli verið skipað út í Neskaupstað í mánuðinum.