„Við erum núna í fjörunni við Hrollaugseyjar. Það er einhver loðna hérna en mjög dreifð. Við erum nýkomnir á svæðið og höfum kastað einu sinni og fengið 40-50 tonn. Það er allt og sumt,“ sagði Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki NK frá Neskaupstað þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann laust eftir klukkan 13 í dag.

Sturla sagði aðspurður að ekki væri ennþá að sjá að nein alvöru loðnuganga væri komin suður fyrir land. Tvö skip til viðbótar, Aðalsteinn Jónsson SU og Pólar Amaroq, eru að svipuðum slóðum og Börkur, en önnur íslensk skip eru flestöll í höfn og bíða átekta.

Fjöldi norskra loðnuskipa er nú úti fyrir norðanverðum Austfjörðum og að minnsta kosti tvö norður af Melrakkasléttu en engar fréttir hafa borist af loðnu frá þeim.