Á vef Landssambands smábátaeigenda er vakin athygli á því að verð á óslægðum þorski á fiskmörkuðum frá janúar til mars í ár hafi lækkað um 11% miðað við sama tíma í fyrra. Hins vegar hafi útflutningsverðmæti þorskafurða fyrstu þrjá mánuði lækkað mun minna milli ára í krónum talið, eða um 4,2% að meðaltali.
„Að undanförnu hafa miklar umræður spunnist um fiskverð. Óánægju og nokkurrar tortryggni hefur gætt um hvort tölurnar sýni það sem er að gerast á mörkuðum fyrir þorsk,“ segir á vef LS.
„Vafalaust setja menn spurningarmerki við þessar tölur og benda á varðandi útflutninginn í hvaða pakkningar þorskurinn er unninn. Það breytir því þó ekki að verð á fiskmörkuðum virðist hafa fylgt genginu en í útflutningi hefur náðst hækkun sem fylgt hefur gengisfalli erlendra mynta gagnvart krónu.
Það er vonandi að þetta málefni verði rætt á næstu dögum og reynt að finna hvaða skýringar eru á þeim mismun sem hér er upplýstur,“ segir ennfremur á vef LS.