Strandveiðar skipta öll sjávarþorp miklu máli. Þau sem stóðu að breytingunum árið 2017, við að gera landið af einum heildarpotti í strandveiðum og reyna að festa 12 daga í mánuði í sessi, hafa hins vegar stórskaðað strandveiðikerfið. Þrjú svæði hafa nánast staðið í stað og tek ég hér sérstaklega C-svæði fyrir, sem er Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Svæðið hefur ekki notið þeirrar aukningar á aflaheimildum sem komið hafa inn í kerfið eftir breytingarnar, heldur þvert á móti.

Árið 2016 var heildarveiðin 9,136 tonn og árið 2021 var hún 12.170 tonn. Heildaraukning aflaheimilda í kerfinu frá 2016 til 2021 er því 3.034 tonn. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um A-svæði. Þar hefur aukning frá árinu 2016 til 2021 farið úr 3.489 tonnum í 5.991 tonn árið 2021.  Aukningin er upp á 2.502 tonn.

Niðurstaðan er því sú að 2.502 tonn hafa skilað sér á A-svæði. Afgangurinn, sem er 532 tonn, á hin svæðin þrjú, B, C og D. Bátafjöldinn er nánast sá sami. 261 bátur er á A-svæði af 672 heildarfjölda báta í kerfinu og voru með rétt tæpan helming af aflaheimildum síðasta árs. Er þetta rétt þróun?

Ósanngirni veiðanna

Mikið var talað um ósanngirni veiðanna árið 2016 vegna hversu fáa róðra sjómenn fengu á A-svæði. Það mátti hins vegar færa til betri vegar. En meðalveiði á bát 2016 og árin á undan var nánast sú sama á öllum svæðum og gat vart verið jafnari. Þó skar D-svæði sig úr enda hluti aflans færður yfir á A-svæði.

Meðalveiði á bát:
A-svæði árið 2016 var 14,400 kg.  en 22.953 kg. árið 2021.
B-svæði árið 2016 var 14.100 kg.  en 17.665 kg. árið 2021.
C-svæði árið 2016 var 15.100 kg . en 16,926 kg. árið 2021.
D-svæði árið 2016 var 10.500 kg.  en 11.002 kg. árið 2021.

Strandveiðar með 48 fasta daga í fjóra mánuði verður ekki að veruleika að óbreyttu, enda hentar fyrirkomulagið engan veginn öllum svæðum. Þar spilar inn í fiskgengd og aðrir þættir, það sjá allir sem til þekkja. Það er álíka heimskulegt að halda að jafnmargir sólardagar séu á hverju sumri í Ásbyrgi og á Þingvöllum vegna þess að bæði svæðin tilheyra þjóðgarði.

Enn sama kappið

Mismunun á milli svæða  hefur leitt til sundrungar og er ekki þeim um að kenna sem gagnrýna kerfið og eiga alltaf á hættu að verða stoppaðir af þegar verðmætasti fiskurinn og góð veiði er á þeirra svæði. Heldur er því fólki um að kenna sem stóðu að þessum breytingum og báru fyrir sig öryggi sjómanna í áróðrinum. Það er sama kappið að ná sínum dögum í núverandi kerfi. Engin breyting er þar á. Tilgangur strandveiða er að tryggja byggðafestu hinna dreifðu byggða og að tryggja nýliðun og jafnan hlut til veiða  allt í kringum landið. Þessu hafa sumir gleymt, því miður.

Gefum okkur það að heildarpotturinn verði 8.500 til 10.000 tonn á komandi vertíð. Þá er einsýnt að veiðar ná ekki lengra en út júlí miðað við núverandi fyrirkomulag. Hvað er þá til ráða? Loka fyrir veiðar í ágúst? Byrja veiðarnar seinna í ár? Fækka föstum dögum í hverjum mánuði og auka seinna við daga ef aflaheimildir leyfa, t.d. í ágúst? Í þeim mánuði eru 18 veiðidagar þar sem má róa, sem yrði samskonar fyrirkomulag og sóknadagastýring grásleppuveiða í dag sem „þykir svo góð.“

Eitt er víst. Það gengur ekki að stoppa veiðar ávallt seinni hluta sumars. Þeirri mismunun verður að ljúka og það strax. Ég vona að stjórnvöld gæti jafnræðis milli svæða í meðferð strandveiðikerfisins og með hag allra sjávarbyggða í huga.

Góðar stundir.