Makrílveiðin gengur misjafnlega en nú er veitt í Smugunni. Oft er veiðin ansi róleg en inn á milli koma góð skot. Skipin eru í veiðisamstarfi og Síldarvinnsluskipin þrjú, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, eiga í góðu samstarfi við Samherjaskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Margréti EA, að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Hverju sinni er afla allra skipanna dælt um borð í eitt þeirra sem flytur hann síðan til lands. Í gær var lokið við að landa tæplega 1.000 tonnum úr Margréti EA í Neskaupstað.

Á mánudaginn kom gott skot á miðunum í Smugunni en þá fengu samstarfsskipin fjögur sem voru að veiðum samtals um 1.000 tonn. Holin voru frá 200 tonnum og upp í um 320 tonn. Afla þeirra var dælt um borð í Vilhelm Þorsteinsson og kom hann til Neskaupstaðar með 1.420 tonn í gærkvöldi. Eftir skotið var veiði skipanna mun rólegri og er afla þeirra nú dælt um borð í Beiti.

Minni og viðkvæmari fiskur

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar.

„Ég held að megi segja að vinnslan gangi ágætlega en því er ekki að leyna að vinnsla á Smugumakríl felur í sér meiri áskoranir en vinnslan á fiski sem veiddist í íslenskri lögsögu. Fiskurinn úr Smugunni er minni og viðkvæmari en sá fiskur sem veiddur var í íslensku lögsögunni og það er óneitanlega heldur erfiðara að vinna hann. Á meðan meðalvigt á fiski úr íslenskri lögsögu var 550 grömm er meðalvigtin um 450 grömm á Smugufiskinum. Í fiskiðjuverinu er fiskurinn ýmist hausaður, flakaður eða heilfrystur en það sem flokkast frá fer til mjöl- og lýsisframleiðslu. Það sem af er vertíðinni er búið að taka á móti um 12.500 tonnum af makríl til vinnslu hér í Neskaupstað og nú er verið að landa 1.420 tonnum til viðbótar úr Vilhelm Þorsteinssyni,” sagði Geir Sigurpáll.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar.

Þó svo að meðalvigt makrílsins sem veiðist í Smugunni sé 450 grömm þá koma þaðan á land býsna stórir fiskar. Sá stærsti sem starfsfólk fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar hefur séð á þessari vertíð reyndist vera 1,52 kíló að þyngd og 52 sentimetrar að lengd. Þar er um að ræða sannkallaðan risamakríl.