Makrílveiðin gengur misjafnlega en nú er veitt í Smugunni. Oft er veiðin ansi róleg en inn á milli koma góð skot. Skipin eru í veiðisamstarfi og Síldarvinnsluskipin þrjú, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, eiga í góðu samstarfi við Samherjaskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Margréti EA, að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Hverju sinni er afla allra skipanna dælt um borð í eitt þeirra sem flytur hann síðan til lands. Í gær var lokið við að landa tæplega 1.000 tonnum úr Margréti EA í Neskaupstað.
Á mánudaginn kom gott skot á miðunum í Smugunni en þá fengu samstarfsskipin fjögur sem voru að veiðum samtals um 1.000 tonn. Holin voru frá 200 tonnum og upp í um 320 tonn. Afla þeirra var dælt um borð í Vilhelm Þorsteinsson og kom hann til Neskaupstaðar með 1.420 tonn í gærkvöldi. Eftir skotið var veiði skipanna mun rólegri og er afla þeirra nú dælt um borð í Beiti.
Minni og viðkvæmari fiskur
Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar.
„Ég held að megi segja að vinnslan gangi ágætlega en því er ekki að leyna að vinnsla á Smugumakríl felur í sér meiri áskoranir en vinnslan á fiski sem veiddist í íslenskri lögsögu. Fiskurinn úr Smugunni er minni og viðkvæmari en sá fiskur sem veiddur var í íslensku lögsögunni og það er óneitanlega heldur erfiðara að vinna hann. Á meðan meðalvigt á fiski úr íslenskri lögsögu var 550 grömm er meðalvigtin um 450 grömm á Smugufiskinum. Í fiskiðjuverinu er fiskurinn ýmist hausaður, flakaður eða heilfrystur en það sem flokkast frá fer til mjöl- og lýsisframleiðslu. Það sem af er vertíðinni er búið að taka á móti um 12.500 tonnum af makríl til vinnslu hér í Neskaupstað og nú er verið að landa 1.420 tonnum til viðbótar úr Vilhelm Þorsteinssyni,” sagði Geir Sigurpáll.

Þó svo að meðalvigt makrílsins sem veiðist í Smugunni sé 450 grömm þá koma þaðan á land býsna stórir fiskar. Sá stærsti sem starfsfólk fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar hefur séð á þessari vertíð reyndist vera 1,52 kíló að þyngd og 52 sentimetrar að lengd. Þar er um að ræða sannkallaðan risamakríl.