Minnsti togbátur landsins er væntanlega Andvari VE-100, tólf metra löng trilla sem nú er kominn með togbúnað. Hafþór Halldórsson skipstjóri starfar annars sem verkefnastjóri hjá Vestmannaeyjabæ og hefur verið að útbúa bátinn fyrir togveiðar, með heimasmíðuðum toghlerum og togspilum.

Hann hófst handa síðasta sumar, byrjaði á að lesa sér til og finna teikningar. Síðan var leitað til kunningja um ráð og aðstoð og loks tekið til við að smíða heima í bílskúr.

„Hérna í Vestmannaeyjum þar sem ég bý er frekar leiðinlegt handfærasvæði,“ segir Hafþór. „Að minnsta kosti ekki til þess að hafa sem hobbí með allt árið. Þetta er bara mars, apríl og maí sem má ganga að einhverju að vísu á færum þannig að maður var að spá hvað maður gæti gert annað þegar hann gefur sig ekki á færin. Maður gæti farið á línu, en þá þarf maður hús og beitningaraðstöðu og fara að beita og þá allt í einu flaug í mig, þegar ég var að skoða breska skipasölur og svona, að það er mikið af minni togbátum hingað og þangað um heiminn. Eitthvað hérna áður fyrr á Íslandi líka, en ekkert mikið. Svo ég fór bara á stúfana og kynnti mér þetta.“

Heimasmíðaðir hlerar

Báturinn var handfærabátur þannig að Hafþór vantaði spil og allar græjur sem þarf í togveiðar.

„Ég byrjaði á að smíða mér sjálfur trollhlera, en komst síðan að því að þeir voru of litlir. Ég hef ekki verið alveg að ná að skvera hjá mér trollið nógu vel með þeim. Það er samt eitthvað sem þarf bara að stilla til og reyna pína þá í meiri skver þangað til ég fæ hentugri hlera, en það eru alltaf brjáluð veður.“

Andvari VE kominn með nýju hlerana. MYND/Hafþór Halldórsson
Andvari VE kominn með nýju hlerana. MYND/Hafþór Halldórsson

  • Andvari VE kominn með nýju hlerana. MYND/Hafþór Halldórsson

Trollhlerana smíðaði hann í bílskúrnum hjá sér, notaði teikningu sem hann fann í Fishermans Workbook frá FAO, „þessa svokölluðu humarhlera eins og menn kalla þá hérna heima. Svo vantaði mig spil og þá smíðaði ég mér togspil frá grunni. Rafmagnsspil með gírum og mótorum, setti svo ljósavél á og stýri þeim bara á tíðnibreytum.“

Hafþór segir að dag einn hafi konan hans spurt hvort hann vissi hvar baðvogin væri: „Ég sagði, já ég er að nota hana niðri í skúr til að vigta toghlerana, og var það ekki mjög vinsælt á heimilinu.“

Sérhannað troll

Kunningjar og vinir veittu líka ómetanlega aðstoð. Föðurbróðir Hafþórs er netagerðarmaður hjá Bergi-Huginn og fór allur á flug þegar hann heyrði pælingarnar.

„Úr varð að hann ákvað að taka eina teikningu af Seastar trolli sem hann var búin að breyta aðeins við góða raun og notað á Vestmannaey, minnkaði hana niður og setti upp trollið.“

Beinast lá við að skíra trollið Ministar.

„Trollið í sjálfu sér er ekkert hrikalega lítið, er með ummál uppá tæpa 34metra en er aftur á móti sett upp úr mjög léttum og grönnum efnum.“

Togað á Andvara VE 100, tólf metra langri trillu. MYND/Hafþór Halldórsson
Togað á Andvara VE 100, tólf metra langri trillu. MYND/Hafþór Halldórsson

  • Togað á Andvara VE 100, tólf metra langri trillu. MYND/Hafþór Halldórsson

Þegar Fiskifréttir náðu tali af Hafþóri var hann að bíða eftir veðri til að geta komist almennilega í fisk.

„Eini túrinn sem ég náði að fiska eitthvað lenti ég í vandræðum með að ná þessu inn. Það endaði með því að ég fékk allt í skrúfuna og missti megnið af aflanum. En ég sá samt að þetta virkaði þannig að ég bíð bara spenntur.“

Plasthlerar væntanlegir

Hafþór komst síðan í samband við Atla Má Jósafatsson hjá Polar toghlerum, sem hefur framleitt litla hlera fyrir báta af minni gerðinni, allt að 20 til 24 metrum.  Undanfarið hefur Atli einnig verið að hanna litla hlera úr endurunnu plasti, sem nú er verið að prófa.

„Hann spurði hvort ég vildi ekki bara prófa þessa hlera fyrir hann. Þannig að maður bíður spenntur eftir þeim. Mínir eru of litlir en ég nota þá samt, píni þá aðeins.“

Til að byrja með ætlar Atli að útvega honum hefðbundnu Neptune hlerana frá Polar og fá þannig samanburð á plasthlerunum.

„Ég er nú bara þannig að ef mér dettur einhver vitleysa í hug þá verð ég bara að klára það,“ segir Hafþór Halldórsson, skipstjóri á minnsta togbát landsins. MYND/Hafþór Halldórsson