Rekstrarhagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir lækkaði um 20% á milli áranna 2012 og 2013. Rekstrarhagnaðurinn hefur ekki verið lægri í hlutfalli af tekjum í átta ár.

Samtímis hafa skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja farið vaxandi. Alls greiddu þau 21,5% af heildarsköttum ríkissjóðs á tekjur og hagnað lögaðila á árinu 2013.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á reikningum sjávarútvegsfyrirtækja og fjallað verður um á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í fyrramálið.

Morgunblaðið hefur það eftir Jónasi Gesti Jónassyni hjá Deloitte að minni rekstrarhagnaður skýrist fyrst og fremst af lægra afurðaverði og styrkingu krónunnar.