Samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu hefur útflutningur á óunnum ísfiski bæði minnkað að magni til og einnig sem hlutfall af heildarafla, að því er fram kemur í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Samanburðurinn tekur til tímabilanna september 2009 til janúar 2010 og september 2008 til janúar 2009. Verulegur breytileiki er þó eftir tegundum. Á fyrra tímabilinu voru flutt út 20.915 tonn af óunnum fiski en því seinna 14.929 tonn og er lækkunin 5.986 tonn, eða 28,6%.
Sé litið til breytinga á útflutningi á óunnum ísfiski sem hlutfall af heildarafla sömu viðmiðunartímabila, kemur í ljós að á fyrra tímabilinu var útflutningurinn 12,8% af heildarafla, en á því síðara var hann 9,4% af heildarafla. Þannig er um ríflega fjórðungslækkun að ræða. Það eru nokkur tíðindi, haldi þessi þróun áfram, því frá árinu 2003 hefur þetta hlutfall að mestu farið vaxandi.
www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/9926