Fiskistofa hefur birt yfirlit yfir veiðar íslenskra skipa úr deilistofnum á fyrstu átta mánuðum ársins 2014. Þar kemur fram að síldaraflinn hefur minnkað og veiðar á úthafskarfa eru aðeins svipur hjá sjón.

Íslendingar hafa á fyrstu átta mánuðum ársins landað 9.626 tonnum af norsk-íslenskri síld. Þetta er nokkuð minni afli en á sama tíma í fyrra en þá var aflinn 25.598 tonn. Aflinn hefur einungis verið veiddur úr íslensku lögsögunni  en í fyrra höfðu íslensku skipin fengið tæp 400 tonn úr færeyskri lögsögu.

Íslensk skip hafa veitt 134.325 tonn af makríl á fyrstu átta mánuðum ársins og var tæpum 125 þúsund tonnum aflað úr íslenskri lögsögu eða 93% aflans.  Um 9.514 tonnum var aflað úr grænlenskri lögsögu.

Enn dregur úr afla í úthafskarfa og hefur hann aldrei verið minni síðan íslensk skip hófu beina sókn í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Nú þegar vertíðinni er lokið fengust aðeins 2.436 tonn af úthafskarfa. Í fyrra var aflinn hins vegar 8.617 tonn.

Uppfærðar töflur sem sýna skiptingu afla íslenskra skipa í úthafstegundum eftir veiðisvæðum er hægt að skoða hér .