Sterk hefð er fyrir því í Póllandi að borða saltaða og maríneraða síld sem forrétt og skola henni niður með vodka. Pólverjar hafa ávallt verið stórir neytendur síldar. Fram til ársins 2000 var árleg síldarneysla á hvert manns barn þar í landi yfir 3 kíló. Síðan þá hefur neyslan minnkað jafnt og þétt og er komin niður fyrir 2 kíló.

Á vefnum Undercurrentnews.com er haft eftir ónefndum framkvæmdastjóra hjá hinu þekkta niðursuðufyrirtæki King Oscar að ástæðan fyrir minni síldarneyslu Pólverja sé sú að fólk drekki minna af vodka en áður.

Opinbera skýringin er hins vegar sú að margir hafi snúið baki við síldinni vegna hærra verðs á þessari vöru og auknu framboði af öðrum fiski svo sem laxi og hvítfiski enda sýna tölur að neysla á þeim hefur aukist. Þá er ljóst að síld nýtur meiri vinsælda meðal eldra fólks en yngra.

Norðmenn selja mikið af síld til Póllands. Samkvæmt upplýsingum Norska sjávarafurðaráðsins hækkaði verð á frystri síld frá Noregi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs um 20%.

Heildarfiskneysla  Pólverja hefur haldist í 12-15 kílóum á mann árlega.