„Við höfum verið hér á suðausturmiðum undanfarnar vikur og fengið góðan þorskafla. Það hefur dálítið af ýsu fiskast með. Nú er heldur að róast yfir þorskveiðinni en það á eftir að koma í ljós hvort um tímabundið ástand er að ræða,“ segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, í stuttu spjalli á heimasíðu Brims hf.
Greint er frá því að á þessum tíma árs hafa ísfisktogarar Brims oft verið á þorskveiðum á Vestfjarðamiðum. Þar hafi hins vegar lítið fengist í haust á meðan töluvert hefur verið af stórum og góðum þorski fyrir austan.
„Hér er mikill floti báta og togara og það hefur verið nóg fyrir alla fram að þessu. Hér hefur verið nokkuð gott tíðarfar en við hrepptum þó hið versta veður fyrir nokkrum dögum, haugabrælu og ekkert veiðiveður,“ segir Magnús
Hann segir Akurey stefna á löndin í Reykjavík á fimmtudag
„Hugmyndin er sú að enda túrinn á karfaveiðum á Fjöllunum á leiðinni heim. Það þýðir að við förum héðan í kvöld áleiðis á Fjöllin. Þangað er 27 tíma stím og við náum því miðvikudeginum á karfaveiðum,“ sagði Magnús Kristjánsson í gær.