Norska hafrannsóknastofnunin hefur upplýst að hafi minna fundist af norsk-íslenskri síld en vænst hafi verið í leiðangri stofnunarinnar í maímánuði. Gert var ráð fyrir að stofninn færi minnkandi en samdrátturinn er verulega meiri en búist var við, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum.
Fram kemur á vef stofnunarinnar að í fyrra hafi stofninn verið metinn 10,6 milljónir tonna en ekki eru gefnar upp tölur um matið í ár.
Norska hafrannsóknastofnunin bendir á að orsök þess að minna hafi mælst af síld en vænst hafi verið geti verið af tvennum toga. Annars vegar að náttúrulegur dauði í stofninum milli áranna 2009 og 2010 hafi orðið meiri en reiknað var með. Hins vegar að breytingar á göngumynstri hafi haft áhrif á mælinguna.
Bent er á að þess séu dæmi að áður hafi mælst samdráttur í síldarstofninum en það hafi síðan verið leiðrétt þegar fyrir lágu aflaupplýsingar og önnur gögn. Norska hafrannsóknastofnunin ætlar því að útvíkka leiðangur sem farinn verður í júlí til þess að ganga úr skugga um hvort matið á síldarstofninum frá því í maí sé rétt.
Rannsóknaskip frá Íslandi, Færeyjum og Evrópusambandinu tóku þátt í sameiginlegum rannsóknum í maímánuði á norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl. Vísindamenn landanna munu á næstunni bera saman niðurstöður sínar. Áður hefur komið fram að talsvert minna mældist af síldinni innan íslensku lögsögunnar en í fyrra.