Jafnmikið fannst af loðnu í Barentshafinu og í fyrra, en meira var af ungloðnu og minna af hrygningarloðnu. Þetta eru niðurstöður úr sameiginlegum leiðangri Rússa og Norðmanna sem farinn var í ágúst og september.
Heildarstofninn mældist um 3,8 milljónir tonna sem er lítilsháttar aukning frá því sem var í fyrra. Hrygningarstofninn, þ.e. veiðistofninn fyrir árið 2014, mældist 1,3 milljónir tonna. Það er 35% samdráttur í samanburði við síðasta ár.
Meðalvöxtur loðnu í hverjum aldurshópi hefur minnkað og er það í samræmi við þróun undanfarinna ára.
Veiðiráðgjöf ICES verður lögð fram 8. október og í næstu viku mun norsk-rússneska fiskveiðinefndin ákveða loðnukvótann í Barentshafi fyrir árið 2014.