,,Ein af þeim sjávarafurðum sem lýtur ekki lögmáli framboðs og eftirspurnar eru grásleppuhrogn. Þrátt fyrir að vertíðin nú skili vart meir en helmingi þess sem veitt var í fyrra er meðalverð á mörkuðum 39% lægra en það var í fyrra," segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

Þar kemur fram að blaut hrogn hafa að meðaltali selst á 597 kr/kg það sem af er vertíð, en verðið fyrir sama tímabil á síðustu vertíð var 973 kr/kg.

,,Verðlækkunin er gríðarlegt áfall fyrir grásleppusjómenn sem margir hverjir hafa nú lokið vertíð, sem einungis stóð í 32 daga, en upphafsdagur hennar var 20. mars.  Á síðasta ári voru veiðidagar hins vegar 50.  Auk þessara reglugerðartakmarkana er hámarksfjöldi neta á vertíðinni nú þriðjungi lægri en í fyrra.

Ágæt veiði á V-fjörðum, N-landi og NA-landi hefur lítt dugað á móti hamlandi þáttum reglugerðar hvað varðar heildarafrakstur vertíðarinnar.

Auk færri daga og neta hefur lágt verð dregið úr áhuga sjómanna á grásleppuveiðum sem sýnir sig best á að í dag eru einungis 135 bátar á veiðum en voru á sama tíma í fyrra 273."

Bent er á á vef LS að í þessari miklu verðlækkun á hrognunum hafi það verið ljós í myrkrinu að góður markaður sé fyrir skorna grásleppu sem hafi hækkað um 30% á milli ára.

Heildarveiðin nú hefur skilað um 4.700 tunnum af söltuðum grásleppuhrognum.