Norsk-rússneska fiskveiðinefndin hefur samþykkt að auka þorskkvótann í Barentshafi umfram það sem Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til sem hámarksafla og leyfa veiðar á einni milljón tonna af þorski á næsta ári. Það er 25% aukning frá kvóta yfirstandandi árs.
Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði lagt til að hámarksaflinn yrði 940.000 tonn á næsta ári. Ákvörðunin um að fara í milljón tonn er rökstudd með því að ástand þorskstofnsins í Barentshafi sé sérlega gott og gæta þurfi jafnvægis í vistkerfinu.
Aftur á móti ákvað norsk-rússneska fiskveiðinefndin að draga meira úr ýsukvótanum en Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til. Kvótinn á næsta ári verður 200.000 tonn sem er 38.000 minna en Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði ráðlagt.