Norskur rannsóknasjóður ætlar að verja 45 milljónum norskra króna (um einum milljarði ISK) á næstu þremur árum til að rannsaka og skrá áhrif sjávarafurða á heilbrigði fólks, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Það er rannsóknarsjóður sjávarútvegsins (FHF) og norska rannsóknaráðið sem leggja til peningana í þessar rannsóknir. Á vef FHF kemur fram að heilnæmi sjávarafurða sé að vísu vel þekkt og upplýsingar um það aðgengilegar. Hins vegar hafi fyrri rannsóknir flestar miðað að tilteknum þáttum og einstökum efnum í sjávarafurðum og áhrif þeirra á heilsu manna. Nú vilja þeir láta rannsaka og skrásetja heildaráhrif sjávarafurða í þessu tilliti.