Evrópusambandið hefur samþykkt fjárfestingaráætlun fyrir sjávarútveg og strandbyggðir á Ítalíu og í Rúmeníu. Á Ítalíu felur áætlunin í sér 978 milljónir evra (138 milljarða ISK) en í Rúmeníu hljóðar áætlunin upp á 224 milljónir evra (32 milljarða ISK). Áætlunin er fyrir tímabilið 2014 til 2020.

Í ítalska pakkanum koma 537 milljónir evra úr sjóði ESB sem nefnist „European Maritime and Fisheries Fund“ (EMFF) en Rúmenar fá 168 milljónir evra úr sjóðnum.

Fjármununum verður varið til verkefna sem stuðla að sjálfbærni, skynsamlegri nýtingu auðlinda, nýsköpun, samkeppnishæfari fiskveiðum, vistvænum siglingum og annarri uppbyggingu á starfsemi strandbyggða. Einnig verður stuðlað að hagkvæmu og umhverfisvænu fiskeldi og fiskvinnslu.