Á aðalfundi LS vakti Örn Pálsson framkvæmdastjóri athygli á erfiðleikum í sölu á makríl eftir að Rússlandsmarkaður lokaðist.  Í raun ætti það einnig við fleiri tegundir sem hefði þurft að finna markað fyrir. Þótt tekiðst hefði að selja væru verð langtum lægri en Rússar hefðu greitt.

Örn tók dæmi af 4 tegundum: makríl, síld, loðnu og karfa og bar saman útflutning til Rússlands 2014 og 2015. Í makríl var hlutdeild til Rússlands 34% árið 2014 en 19% árið 2015. Síldin fór úr 44% í 22%, loðnan úr 32% í 16% og karfi úr 21% í 5%.

Útflutningsverðmæti þessa magns árið 2014 var 23,3 milljarðar, en í fyrra skiluðu tegundirnar aðeins 9,8 milljörðum - mismunurinn 13,5 milljarðar.

Langmest munaði um makrílinn sem skilaði 9,12 milljörðum 2014 en í fyrra námu heildarviðskipti við Rússa með hann aðeins 2,7 milljörðum.

Frá þessu er greint á vef LS.