Lengi hefur verið ljóst að bláuggatúnfiskstofninn í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi er gróflega ofveiddur og brýn nauðsyn á því að draga úr sókninni í hann. Eigi að síður veitti Evrópusambandið jafnvirði 6,3 milljörðum íslenskra króna til þess að styrkja túnfiskútgerðir í ríkjum sambandsins á árunum 2000-2008.
Til viðbótar því komu svo styrkir frá stjórnvöldum í hverju ríki fyrir sig sem oft eru álíka háir og ESB-styrkirnir.
Meirihluti styrkjanna fóru í að endurbæta og endurnýja túnfiskskipin. Spánverjar fengu tvo þriðju styrkjanna frá ESB, næst á eftir komu Frakkar og Ítalir og þar á eftir útgerðir á Kýpur, Möltu og í Grikklandi.
Þetta kom fram í svari Joe Borg fráfarandi sjávarútvegsstjóra ESB við fyrirspurn frá Raul Romeva þingmanni á Evrópuþinginu. Fyrirspyrjandinn sagði það vera hræsni af hálfu Evrópusambandsins að tala um verndun bláuggatúnfiskstofnsins í einu orðinu en veita fjárstyrki til þess að auðvelda útrýmingu hans í hinu.
Skip í ríkjum Evrópusambandsins sem veiða túnfisk eru 859 talsins. Nýlega var ákveðið að túnfiskkvótinn yrði skertur um 30% eða úr 19.950 tonnum í ár í 13.500 tonn á því næsta.
Alþjóðlegi sjávarútvegsvefurinn fis.com skýrir frá þessu.