Faxaflóahafnir hyggjast leggja hafnsögubátnum Haka og verður þá þörf fyrir annan bát hið fyrsta. Stjórn Faxaflóahafna hefur sett það á fjárhagsáætlun að fjárfest verði í rafknúnum hafnsögubát með fjárheimild upp á 2 milljarða kr. Það tæki u.þ.b. þrjú ár að smíða þannig bát og millileikurinn gæti orðið dísilknúinn bátur, annaðhvort nýr eða notaður.

Komum stórra skipa, jafnt flutningaskipa sem skemmtiferða skipa, hefur fjölgað mjög til Sundahafnar undanfarin misseri og því ríður á að hafa flota öflugra hafnsögubáta til taks, ekki síst í ljósi atburða sem urðu í Viðeyjarsundi 26. maí 2023. Þá misstu stjórn endur skemmtiferðaskipsins Norwegian Prima tímabundið stjórn á skipinu í stífum 50 hnúta vindi. Skipið rak innan við tíu metra frá grynningum við Viðey áður en tókst að ná stjórn á því. Skipið skemmdist ekki en smávægilegar skemmdir urðu á dráttarbátnum Magna þegar hann reyndi að ýta skipinu frá grynningunum. Þarna mátti litlu muna að illa færi.

22-27 metra langur bátur

Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, segir að dráttarbátafloti Faxaflóahafna sé tiltölulega öflugur en horft sé til þess núna að skipta út Haka fyrir öflugri bát. „Hugsunin var sú að það yrði bátur á grænum orkugjafa en við erum að skoða næstu skref hvað það varðar. Það þarf að bjóða út verkið og allt hefur þetta sinn aðdraganda. Við erum að reyna átta okkur á því hvort það sé raunhæft að fara strax í dráttarbát með grænum orkugjafa. Kannski gæti það verið millileikur að fara í venjulegan dísilknúinn bát í þrjú til fimm ár meðan við sjáum hvernig tækninni vindur fram hvað varðar aðra orkugjafa. Ef dísilbátur yrði fyrir valinu yrði það bátur sem væri svipaður á lengd og Haki, þ.e. 22-27 metrar í mesta lagi. Nýr bátur yrði aldrei tilbúinn fyrr en eftir þrjú ár í fyrsta lagi svo notaður bátur kæmi til greina sem millileikur.“

Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum. FF MYND/GUGU
Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum. FF MYND/GUGU

Skipstjórar í þjálfun

Þjálfun stendur yfir hjá skipstjórum á dráttarbátnum Magna og námskeiðinu stýra danskir aðilar sem hafa komið í sömu erindagjörðum hingað áður. Magni er ólíkur öðrum dráttarbátum Faxaflóahafna að því leyti að hann er mun öflugari og auk þess með svonefndum azimut-skrúfubúnaði og stýringu uppi í brú með stýripinnum. „Við byrjuðum á því að halda svona námskeið í kjölfar þess að Magni kom til landsins fyrir að verða fjórum árum.“

Alls eru sjö skipstjórar á Magna á fjórum vöktum og eru tveir á hverri vakt. Faxaflóahafnir hafa einnig sent hafnsögumenn til Hamborgar til þjálfunar og sömuleiðis skipstjóra frá öðrum útgerðum. Gísli Jóhann segir að atvikið alvarlega á Viðeyjarsundi 2023 hafi ekki síst hreyft við mönnum hvað varðar öryggisþáttinn. Magni kom til landsins fyrst í febrúar 2020 og kostaði tæplega 1.200 milljónir kr. Fljótlega eftir móttöku á bátnum kom í ljós að ekki var allt með felldu varðandi virkni bátsins. Bátnum var svo siglt til Hollands til framleiðandans Damen í júlí 2020. Þar var hann í heilt ár í viðgerðum og kom loks aftur til Íslands í maí 2021. Gísli Jóhann segir að dráttarbátur af svipaðri getu og Magni og með grænar lausnir kosti um helmingi meira en dísilknúinn jafnoki. Faxaflóahafnir hafa sett sér stefnu um grænar hafnir og að vera í forystu í loftslags- og umhverfismálum í hafnsækinni starfsemi.