Því er spáð að útflutningur sjávarafurða frá Víetnam muni aukast mikið á næstu árum og verða um 8 milljarðar dollara árið 2020, jafnvirði 930 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur á vefnum fishupdate.com
Haft er eftir forsvarsmanni Fiskistofu þeirra í Víetnam að fiskeldi hafi aukist umtalsvert og að aukningin hafi verið um 15% að meðaltali á ári undanfarin ár.
Á um 1,1 milljóna hektara lands í Víetnam voru framleidd um 2,8 milljónir tonna af sjávarafurðum á síðasta ári sem gáfu 4,94 milljarða dollara í útflutningstekjur.
Kynbætur og tækniþróun hafa stuðlað að aukningu í fiskeldi. Önnur kynslóð af pangasius vex til dæmis 13% hraðar en fyrri kynslóðin. Einnig hafa orðið miklar framfarir í eldi á risarækju.