„Við höfum unnið vel og það eru 56 ný fyrirtæki með á sýningunni að þessu sinni,“ segir Mariannne Rasmussen, framkvæmdastjóri sjávarútvegssýningarinnar Icefish til margra ára.

Í ár eru fjörtíu ár síðan fyrsta sjávarútvegssýningin fór fram og var því sérstaklega fagnað . fyrsta kvöldið á móttökuathöfn í Salnum í Kópavogi þar sem einnig var verðlaunaafhending.

Marianne segir að um 400 sýnendur og vörumerki taki þátt. Af þeim séu 59 prósent íslenskir aðilar og 41 prósent alþjóðlegir.

Nýju fyrirtækin sem mæta eru frá Íslandi vitanlega en einnig frá Kanada, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Portúgal, Suður-Afríku, Svíþjóð, Tyrklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Sérstakt Icefish-app

Forsíða sýningaskrár sjávarútvegssýningarinnar 1984.
Forsíða sýningaskrár sjávarútvegssýningarinnar 1984.

Mörg spennandi fyrirtæki eru væntanleg að sögn Marianne. Sýnendur fái nú tækifæri til að vera með kynningar á afmörkuðu svæði fyrir miðju þar sem meðal annars verði unnt að varpa myndum á stóran skjá og fólk getur setið með heyrnartól fjarri skarkala sýningabásanna. „Þarna verði hlutirnir spennandi og lifandi og sýnendur geta pantað svæðið í tuttugu mínútur fyrir sínar kynningar,“ segir hún.

Önnur nýjung sem Marianne nefnir er sérstakt Icefish-app. „Í staðinn fyrir að vera með sýningaskrá fylgjum við tímanum og fólk getur haft þessar upplýsingar í lófanum í gegnum snjallsímann sinn.

Appið færir þér allar upplýsingarnar sem eru á vefsíðu okkar og gefur líka gestum og sýnendum tækifæri til samskipta sín á milli og til að óska eftir fundum hver með öðrum,“ segir hún.

Bás C-12

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, og Marianne Rasmussen skoða sig um á sýningarstað.
Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, og Marianne Rasmussen skoða sig um á sýningarstað.

Sú hugmynd kom upp og féll í góðan jarðveg að setja upp sérstakt samfélagssvæði fyrir Grindavík án endurgjalds fyrir fyrirtæki þaðan. Þau þurfa þó sjálf að setja upp eigin sýningu á svæðinu sem merkt verður C-12.

Þetta segir Marianne hafa tekist að útfæra með tiltölulega stuttum fyrirvara.

„Mín hugmynd var að við gætum haft Grindvíkingana á einum stað. Þeir hafi gengið í gegnum svo erfiða tíma og þurft að flytja sig um set á mismunandi staði. Grindvíkingar gátu áður hist úti á götu á hverjum degi en það er liðin tíð og við vildum gefa þeim vettvang til að koma saman á stað sem er svo mikilvægur fyrir þá starfsemi sem þeir reka og daglegt líf þeirra,“ segir Marianne.

Fylgir straumi tímans

Mikið er lagt í Icefish sýninguna að venju. „Við reynum að þróa sýninguna áfram með tímanum og gera hana betri. Við fjárfestum mikið í kynningarherferðum, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi og það endurspeglast í góðum básum frá sýnendunum. Það er þannig að ef þú lítur vel út þá líður þér vel,“ bendir Marianne á.

Í tilefni tímamótanna kveðst Marianne hafa skoðað sýningarskrána frá sýningunni 1984 og þá séð að sextán af þeim fyrirtækjum sem tóku þátt þá og starfa enn undir sama nafni eru með á sýningunni í ár. Þessi fyrirtæki verða hluti hátíðarhaldanna í tilefni afmælisins.

Fish Waste For Profits verkefnið, sem snýst um arðbæra fullnýtingu sjávarafurða, verður á sínum stað á ráðstefnu á Hilton Nordica í nánu samstarfi við Sjávarklasann.

Pörunarfundirnir vinsælir

Þá nefnir Marianne sérstaka pörunarfundi sem eru skipulagðir eru af Rannís. „Þetta hefur verið mjög vinsælt á fyrri sýningum. Það eru yfir hundrað fundir þar sem 24 þjóðir hittast og skapa viðskiptasambönd sín á milli. Við segjum alltaf að þetta sé svo miklu meira en bara sýning,“ undirstrikar Mariannne.

Mikið er lagt í sýningu af þessu tagi. Í Icefish liðinu frá Englandi og Íslandi eru sextán manns sem starfa á sýningunni. Síðan koma vitanlega fjölmargir aðrir að sýningarhaldinu, öllum undirbúningi og þjónustu.

„Það eru ótal margir sem leggja hönd á plóg til að tryggja að sýningin geti farið í gang þann 18. september,“ segir Marianne.

Sameiningar og fullnýting

Sjálf kom Marinne fyrst að sýningunni árið 1996, eða fyrir 28 árum. Hún segir eina stærstu breytinguna síðan þá vera fjölmargar sameiningar og samruna fyrirtækja í þessum geira eins og reyndar sé tilfellið í öðrum atvinnugreinum. Mörg fyrirtæki hafi líka horfið af sjónarsviðinu því reksturinn hafi ekki gengið upp, meðal annars vegna breytinga í rekstrarlandslaginu.

„Stærsta breytingin er sú sem lýtur að fullnýtingu á fiskinum. Áður voru bara flökin hirt og öllu öðru hent. Í dag eru notaðar nákvæmar skurðarvélar svo hægt sé að ná hverju grammi úr sérhverjum fiski sem veiddur er,“ segir Marianne og nefnir einnig mikla nýtingu hliðarafurða sem orðin sé sífellt fyrirferðarmeiri.

„Síðan má nefna uppgang fiskeldis sem einnig hefur orðið á Íslandi,“ bætir Marianne við. „Í þessum iðnaði  er mikið að gerast og hlutirnir standa alls ekki í stað frekar en á öðrum sviðum mannlífsins.“