Ísland hefur notið þeirrar gæfu að hér hafa mörg íslensk sprotafyrirtæki vaxið úr grasi og orðið að öflugum útflutningsfyrirtækjum. Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarforamður Íslenska sjávarklasans, segir að í samanburði við flest lönd og svæði með svipaðan mannfjölda sé einstakt hversu vel hafi tekist til um að halda höfuðstöðvum fyrirtækjanna hérlendis á meðan önnur svæði af svipaðri stærð séu mest megnis svokölluð útibúasvæði.
Þór segir fjölmargar alþjóðlegar rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess fyrir borgir og svæði, að hafa innanbúðar höfuðstöðvar alþjóðlegra fyrirtækja. „Við höfuðstöðvar fyrirtækja myndast oft stór kjarni af stoðfyrirtækjum. Þegar höfuðstöðvar hafa flutt af svæði hefur atgervisflótti átt sér stað sem teygir sig út fyrir þann hóp sem situr í höfuðstöðvunum."

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Mörg dæmi um mikilvægi höfuðstöðva alþjóðlegra fyrirtækja má sjá hérlendis. Bestu dæmin eru líklega starfsemi Össurar og Marels þar sem mörg stoðfyrirtæki hafa eflst vegna nálægðar við þessi fyrirtæki. Mörg þessara stoðfyrirtækja hafa getað fjárfest í þekkingu og búnaði sem er á heimsmælikvarða vegna þjónustu þeirra við alþjóðafyrirtækin. Í kjölfarið hafa þau síðan geta boðið öðrum fyrirtækjum og sprotum á svæðinu þessa þjónustu. „Marel hefði ugglaust ekki vaxið jafn hratt hérlendis hefðu höfuðstöðvar sjávarútvegsfyrirtækjanna verið í öðrum Evrópuríkjum. Það sama á við um fyrirtæki eins og Alvotech. Þar eins og í hinum tilfellunum hefur margháttuð innlend þjónusta eins og verkfræði-, endurskoðunar- og lögfræðifyrirtækja og almennra ráðgjafafyrirtækja verið nýtt. Starfsemi útibúa hefur ekki þessa kosti nema að litlum hluta og því þarf að kappkosta að halda höfuðstöðvum innanlands."
Fiskast best með höfuðstöðvum
Svæði sem hýsa höfðuðstöðvar alþjóðlegra fyrirtækja hafa fremur getað laðað að fleiri alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta en önnur svæði. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrirmyndir eru til staðar sem vonandi geta sýnt fram á að rekstrarumhverfið sé samkeppnishæft á þeim sviðum sem fyrirtækin horfi helst til.
„Höfuðstöðvar laða oft til sín hæfileikaríkt fólk frá öllum heimshornum, sem leiðir til þess að auðveldara er að fiska hæfileikafólk til svæðisins. Hundruðir erlendra starfsmanna og íslenskir sérfræðingar í fyrirtækjum á borð við Alvotech, Marel, Össuri, CCP og Íslenskri erfðagreiningu hafa getað nýtt sína þekkingu við störf í þessum fyrirtækjum.
Og hvað?
Þór bendir á að nýverið hafi tvö öflug fyrirtæki í bláa hagkerfinu hérlendis verið seld til erlendra fjárfesta; Marel og Kerecis. Jákvætt sé að erlendir fjárfestar sýni áhuga á íslenskum fyrirtækjum og íslenskum einkaleyfum. Sjávarklasinn hafi hvatt til þess að erlendir fjárfestar komi að íslensku athafnalífi en slíkt geti bæði nýst fyrirtækjunum til að efla sitt tengslanet erlendis og til þess að treysta undirstöður þeirra.
„Eftir sem áður þarf að keppast við að halda höfuðstöðvum þessara fyrirtækja hér innanlands sem lengst þótt eignarhald hafi breyst. Þótt ekki séu vísbendingar um að höfuðstöðvar þessara fyrirtækja flytjist burt þá verður ekki horft framhjá því að niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að tilfærsla höfuðstöðva út úr landi eigi sér fyrst og fremst stað þegar eignarhald færist frá innlendum fjárfestum yfir til erlendra.

Mikilvægt er að stjórnvöld fylgist vel með og sett verði fram heildstæð stefna um hvernig tryggja megi best að höfuðstöðvar vaxandi fyrirtækja verði áfram hérlendis. En verkefnið er ekki einungis stjórnvalda. Atvinnulífið allt verður að skynja mikilvægi þess að innviðir séu eins öflugir og kostur er. Þá er ekki síst átt við þá innviði sem hér felast í nýsköpunar- og athafnamenningu sem hefur þróast hérlendis," segir Þór.