Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum opnaði fyrir rúmlega tveimur árum síðan söluskrifstofu fyrir í Portúgal, About Fish Portugal, sem meðal annars sér um sölu á saltfiski á þeim markaði. Vinnslustöðin hefur um áratugaskeið ræktað þennan rótgróna saltfiskmarkað með framleiðslu sem selst á hærra verði en erlendra framleiðenda vegna meiri gæða. Nú fyrir jólin starfrækir About Fish Portugal sérverslun með saltfisk en um er að ræða tímabundið verkefni.
Nuno Araújo er sölustjóri VSV í Portúgal. Hann segir íslenskan saltfisk vera hátíðamat og sjálfsagðan aðalrétt á jólaborði Portúgala. „Þetta er svo gróið í portúgalska menningu og við lærum strax í barnæsku að meta saltfisk. Sá íslenski er einfaldlega bestur,“ segir Araújo.
Söluskrifstofan er í bænum Oliveira de Azeméis, 20 þúsund manna bæ suður af Portó og þar er verslunin einnig. Markmið VSV er því augljóslega ekki að brjóta undir sig stóran markað með versluninni enda segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV, að tilgangurinn sé sá að læra um kauphegðun, smekk og kröfur portúgalskra neytenda og um leið að kynna fisk frá Vinnslustöðinni og skapa stemningu í kringum íslenska saltfiskinn.
Borða ekki ferskan þorsk
Vinnslustöðin vinnur að jafnaði í kringum 3.500 tonn af þorski á hverju ári og fer um þriðjungurinn í saltfiskvinnslu.
„Við höfum framleitt á bilinu 700-800 tonn af saltfiskafurðum á ári. Þannig hefur þetta verið nokkuð stöðugt í gegnum árin. Saltfiskmarkaðir hafa verið mjög erfiðir, sérstaklega árin 2012 til 2014, sem helgaðist af efnahagsástandinu í saltfiskneyslulöndunum Portúgal, Spáni og Ítalíu. Þessi markaður er nú heldur að rétta úr kútnum. Þarna er saltfiskur jafnt hversdagsmatur og lúxusmatur. Menn neyta saltfisksrétta jafnt úr þunnildum og allt upp í bestu hnakka enda er mikil breidd í neyslu og matargerð saltfisks,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV.
Lang stærsti hluti framleiðslunnar er úr vertíðarfiski og fer hún að mestu leyti fram yfir vetrarvertíðarmánuðina. Þó er framleitt allt árið í einhverjum mæli. Portúgalar borða saltfisk allt árið en þó eykst neyslan mikið fyrir jóla- og páskahátíðina og eykst þá jafnan neysla á dýrari afurðum.
Portúgal er, að sögn Sverris, sá markaður sem hefur haldið mest í hefðirnar. Þar er öll þorskneysla saltaður þorskur og ferskur þorskur sést þar ekki á borðum þótt heilmikil ferskfiskneysla sé í öðrum tegundum.
Norskur saltfiskur er langfyrirferðamestur á saltfiskmarkaðnum og sá íslenski einungis lítið brot af heildarmarkaðnum.
„Íslenskur saltfiskur er þekktur af uppruna sínum og neytendur taka hann fram yfir norskan saltfisk. Norskir framleiðendur leggja mesta áherslu á magnið en við höfum lagt meiri áherslu á gæði og þurfum þess vegna að fá hærra verð. Gæðamunurinn felst fyrst og fremst í betri meðferð á hráefninu fyrir verkun.“
Sverrir segir að Portúgal sé aðalmarkaður VSV fyrir saltfisk. Kaupendum og neytendum sé vel sinnt og hlustað á óskir þeirra og viðhorf. Kröfur saltfiskmarkaðsins í Portúgal séu yfirleitt mjög ólíkar þeim sem gerðar eru á Spáni.