Mikill munur er í mörgum tilvikum á meðaltals íshlutfalli skipa sem vigtunarleyfishafar gefa upp og því íshlutfalli sem mælist við eftirlit Fiskistofu, að því er fram kemur á vef Fiskistofu .
Fiskistofa birtir niðurstöður um eftirlit með endurvigtun á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2017. Tilgreind eru fyrirtæki og bátur annars vegar og meðaltal íshlutfalls í samanburði við mælingar eftirlitsmanna hins vegar. Fyrirtækjum er raðað þannig að efst á listanum eru fyrirtæki þar sem munurinn er mestur.
Svo dæmi sé tekið er efst á listanum aðili þar sem íshlutfallið í aflanum var að meðaltali 16,97% samkvæmt upplýsingum vigtunarleyfishafa en við yfirstöðu eftirlitsmanns reyndist það 4,33%. Mismunurinn er 12,64 prósentustig sem íshlutfallið er lægra við eftirlit en það var í aflanum að jafnaði á tímabilinu.
„Ástæður breytilegs íshlutfalls geta verið margvíslegar. Það er hlutverk Fiskistofu að hafa eftirlit með að vigtun á sjávarafla sé sem réttust,“ segir á vef Fiskistofu.