Norska rannsóknaskipið G.O.Sars hefur mælt mikinn makríl á hafsvæðinu utan við Noregsstrendur, allt sunnan frá 60. gráðu og norður undir Bodö. Makríllinn er sú fisktegund á þessu svæði sem er alls ráðandi frá yfirborði sjávar og niður á 50 metra dýpi út frá ströndinni og langt til hafs, segir Leif Nöttestad leiðangursstjóri í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren.
Þá hefur mælst meira af yngri árgöngum makríls en áður sem er góðs viti til framtíðar.
Einnig er ánægjulegt að nýliðun virðist áfram vera góð í kolmunna sem gefur enn frekari vísbendingu að kolmunnastofninn sé að rétta úr kútnum. Hins vegar hefur ekki sést mikið af norsk-íslenskri síld það sem af er leiðangrinum og veldur það nokkrum áhyggjum.
Nöttestad minnir á að leiðangurinn sé aðeins rúmlega hálfnaður og því of snemmt að fella neina dóma.
Leiðangur G.O.Sars er hluti af sameiginlegum rannsóknum á makrílstofninum í NA-Atlanthafi. Skip frá Færeyjum, Christian í Grótinum, hóf einnig mælingar í síðustu viku og Árni Friðriksson á að leggja af stað þessa dagana.