„Við komum hérna úr Smugunni og þá voru bátar búnir að vera að fiska hér deginum á undan alveg við línuna milli Íslands og Færeyja. Svo þegar við komum var bara algert núll; allt horfið,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK sem kom inn í lögsöguna fyrir austan land á mánudag.

Þegar rætt er við Albert fyrir hádegi í gær, þriðjudag, segir hann þá vera komna í makríl vestar og norðar. Þá voru þeir um 80 til 90 mílur austur af Hvalbak í hópi fimmtán uppsjávarskipa.

„Makríllinn er á fullri ferð hérna eitthvert norður eftir. Þetta er mjög stór og flottur fiskur, að meðaltali 580 til 590 grömm,“ segir Albert. Einhver áta sé í honum. Þeir séu núna að veiða í Svaninn RE í samveiði ásamt Venusi NS og þar verði prufur teknar.

Veiðist ekki upp í kvótann

Aflamark og veiði í makríl 2019 til 2025.
Aflamark og veiði í makríl 2019 til 2025.

Spurður hvernig honum lítist á framhaldið segir Albert að minnsta kosti vera einhverja veiði í augnablikinu. „Við vorum með 270 tonn síðast. Það er bara að reyna að fylgja honum eftir,“ segir hann.

Eins og sjá má á grafinu sem fylgir þessari frétt veiðist ekki alltaf upp í allan makrílkvóta Íslendinga sem þess utan fer minnkandi. Í fyrra veiddust innan við 90 þúsund tonn af um 130 þúsund tonna aflamarki. „Það er bara minna af þessu og erfiðara að finna þetta,“ segir Albert. Makrílinn  sjáist ekki vel í tækjum.

Við keyrðum allir hingað

Dælt yfir í Svan RE. Mynd/Aðsend
Dælt yfir í Svan RE. Mynd/Aðsend

„Þetta er mikill eltingaleikur, hann fer alveg svakalega hratt. Það er mjög auðvelt að týna honum,“ segir Albert sem kveður makrílinn vera í hitaskilum sem liggi norður eftir.

Íslensku skipin sem höfðu verið við veiðar í Smugunni eru öll komin í lögsöguna. „Við keyrðum allir hingað þegar við fréttum að menn voru að fá eitthvað hérna við línuna,“ segir Albert. Mikilvægt sé að sem mest af makrílkvótanum fáist innan lögsögunnar. „Það er alveg nauðsynlegt upp á alla samningsstöðu og þess háttar.“

Þannig að ekki er á vísan að róa með makrílinn eins og Albert bendir á. „Klukkutíma gamlar fréttir eru gamlar fréttir í makríl. Þetta er rosalega fljótt að breytast. Maður fylgir honum eitthvert norður og svo snýr maður við og ætlar að fara á móti honum en þarf eiginlega að fara í hring og norður aftur því annars fer hann bara fram hjá manni. Þetta er mikill kappleikur að eltast við hann.“