Mikill áhugi er á að starfa á rannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni en auglýst var nýlega eftir 6 - 7 hásetum og 2 - 3 stýrimönnum til starfa. Umsóknarfrestur var til 14. desember og bárust alls 90 umsóknir sem verið er að vinna úr. Umsækjendur um hásetastörfin voru alls 58 og um stýrimannastörfin voru 32 umsækjendur, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.
Störfin vekja greinilega áhuga margra og í hópi umsækjenda er bæði ungt og reynslulítið fólk sem vill reyna fyrir sér í sjómannsstörfum sem og umsækjendur með áratuga reynslu. Sjómannsstörf á rannsóknaskipunum eru fjölbreytt enda eru rannsóknaleiðangrar margvíslegir. Sumir leiðangrar krefjast hefðbundinnar vinnu með veiðarfæri eins og botntroll, flottroll eða rækjuvörpu á meðan aðrir leiðangrar snúast fyrst og fremst um umhverfismælingar þar sem meðal annars er unnið með mælitæki til að mæla hita og seltu (sondur), átuháfa, neðansjávarmyndavélar eða fjölgeislamæli til kortlagningar hafsbotnsins.
Ástæða þessara ráðninga er að mikill samdráttur hefur verið á úthaldi rannsóknaskipanna á síðustu tveimur árum með tilheyrandi fækkun starfa. Á afmælisári mun starfsemin eflast, m.a. með ráðningu nýrra starfsmanna.