Grásleppukarlar eru þessa dagana að undirbúa veiðarnar sem mega hefjast í lok næstu viku. Allt útlit er fyrir ágætisvertíð að þessu sinni, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Vonast er til að verð á grásleppu og grásleppuhrognum hækki frá því sem var á síðasta ári, að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Fiskifréttir.
Um 400 bátar hafa leyfi til að veiða grásleppu en misjafnt er hve margir nýta sér leyfið hverju sinni. Árið 2011 stunduðu 369 bátar veiðarnar en í fyrra voru bátarnir ekki nema 223. Örn taldi ekki ólíklegt að bátarnir gætu orðið yfir 300 í ár.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.