Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur þessa vikuna haldið hið árlega bátasmíðanámskeið í Gamla Slippnum undir leiðsögn Hafliða Aðalsteinssonar bátasmiðs.
Þátttakendur eru tíu en færri komust að en vildu því alls sótti 21 um pláss á námskeiðinu, og „því ljóst að áhuginn og eftirspurnin er mikil,“ segir á Facebook-síðu safnsins.
Á námskeiðinu hafa nemendur unnið að viðgerð tveggja súðbyrtra báta. Annar er tveggja brúttólesta afturbyggður bátur en hinn færeyskur árabátur, en skipta þarf um „umför í byrðingi, bönd, þóftur, hnífla og borðstokka.“
Rætt var við Hafliða í Fiskifréttum fyrir rúmlega tveimur árum og sagði hann bátasmíði vera hverfandi starfsgrein, enda þótt nokkrir Íslendingar sinni þessu og fáeinir hafi lært bátasmíði á síðustu árum.
Í desember síðastliðnum var handverkið við smíði súðbyrðinga tekið inn á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Súðbyrðingur er norræn bátagerð og aðferðin við smíði þeirra er alls staðar sú sama þótt þeir geti verið ólíkir eftir landssvæðum.