Í aðsendri grein í sérblaði Fiskifrétta, Fiskeldi/lagareldi, sem kom út sl. miðvikudag, frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, var m.a. vitnað til þeirrar niðurstöðu í skýrslu Boston Consulting Group að fiskeldi geti skapað tæplega 250 milljarða króna útflutningsverðmæti árið 2032.

„Fiskeldi á Íslandi er ekki óumdeilt. Á það einkum við um eldi á laxi í sjó. Þótt eldisfyrirtæki geri hvað þau geta til að koma í veg fyrir óhöpp og slys, þá geta þau orðið. Sumt af því sem er aðfinnsluvert við fiskeldi í sjó má rekja til náttúrulegra aðstæðna, sem ekki verður ráðið við með góðu móti. Þegar litið er um öxl yfir undanfarin ár má þó með sanni greina ýmislegt sem hægt er að draga lærdóm af, bæði varðandi forvarnir og áframhaldandi ábyrga uppbyggingu. Fiskeldi er komið til að vera á Íslandi og það á að vera sameiginlegt markmið allra sem að því standa að koma í veg fyrir að starfsemin veki óþarfa áhyggjur vegna umhverfis eða náttúrulegra laxastofna. Stöðugar framfarir og nýsköpun þurfa að eiga sér stað til að tryggja sjálfbæra þróun greinarinnar til framtíðar. Að því er unnið.

Aukin byggðafesta

Fiskeldi eins og það er rekið í dag er tiltölulega nýtt af nálinni og má segja að krafturinn hafi einkum verið í eldi í sjó á Austfjörðum og Vestfjörðum. Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi síðustu ár og hefur orðið til ný og öflug atvinnugrein sem hefur áhrif víða um samfélagið. Vöxtur fiskeldis snýst ekki aðeins um magn og verðmæti því fiskeldi hefur stuðlað að því að aukið líf hefur færst í sveitarfélög víðs vegar á landsbyggðinni og fólksfækkun hefur snúist í fólksfjölgun. Laxeldi hefur því afgerandi áhrif á hagsæld byggða og byggðafestu, ekki síður en á þjóðarhag.

Mikil þjóðhagsleg verðmæti

Áhrif aukinnar framleiðslu sjást glögglega í útflutnings verðmæti og fjölda starfa, en einnig í tekjum ríkis og sveitarfélaga vegna sértækra gjalda og skattgreiðslna. Nefna má að árið 2024 námu útflutningstekjur af fiskeldi um 53 milljörðum króna og lax er nú orðinn næstverðmætasta fiskafurðin sem flutt er frá Íslandi. Þorskurinn er enn í fyrsta sæti.

Margskonar fiskeldi

Mestur vöxtur hefur verið í laxeldi í sjó. Lax er þó ekki eina tegundin sem alin er hér á landi, því alls eru fjórar fisktegundir aldar á Íslandi; lax, bleikja, regnbogi og senegalflúra. Lax og regnbogasilungur eru fyrst og fremst alin í sjó en framleiðsla á laxi er einnig á landi, en í mun minna mæli enn um sinn. Ísland er einnig leiðandi í bleikjueldi á heimsvísu en það fer alfarið fram á landi. Landeldi á senegalflúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi, hófst hér á landi fyrir um áratug. Að auki er hátækniframleiðsla á laxahrognum á Íslandi, sem svarar til um 15% af allri eftirspurn á heimsmarkaði.

Atvinnutækifærum fjölgar

Samfélagslegt framlag fiskeldis er umfangsmikið. Fiskeldisfyrirtæki greiða margs konar sértæk gjöld, þar á meðal auðlindagjald, eldisgjald og umhverfisgjald, sem saman lagt námu yfir tveimur milljörðum króna á síðasta ári. Um það bil þriðjungur auðlindagjaldsins rennur í Fiskeldisjóð, sem hefur það hlutverk að styðja við uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjó er stundað, og þar með efla samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Fiskeldissjóður hefur á undanförnum árum veitt fjármunum í ýmis mikilvæg innviðaverkefni á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar á meðal byggingu leik- og grunnskóla, kaup á slökkvibifreið, uppsetningu þjónustumiðstöðvar, byggingu slökkvistöðvar, lagningu vatnsveitna og uppbyggingu nemendagarða. Með þessum stuðningi hefur fiskeldi haft bein áhrif til eflingar byggða og innviða á þessum svæðum, auk þess sem það hefur skapað fjölbreyttari atvinnutækifæri og styrkt efnahagslega sjálfbærni samfélaganna. Gert er ráð fyrir því að sérstakir skattar og gjöld á fiskeldi skili um 2,4 milljörð um króna í ár. Það er tæplega tvöföldun frá árinu 2023.

Aukinn kraftur í landeldi

Hingað til hefur fiskeldi í sjó verið helsti drifkraftur vaxtar fiskeldis á Íslandi, en undanfarið hefur aukinn kraftur færst í landeldi. Margt bendir til að landeldi verði sífellt fyrirferðameira á næstu áratugum, enda búa Íslendingar að einstökum náttúrulegum aðstæðum og öflugum innviðum sem gera landið afar hentugt til uppbyggingar á þessu sviði, sérstaklega á suðvesturhorninu. Þróunina má sjá í metnaðarfullum áformum íslenskra landeldisfyrirtækja, sem hafa kynnt umfangsmikla uppbyggingu, einkum í laxeldi, á suðvesturhluta landsins.

250 milljarða útflutningsverðmæti

Þegar horft er til framtíðar blasir við að fiskeldi getur orðið ein af meginstoðum íslensks efnahags. Þetta er meðal annars niðurstaða skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group vann fyrir matvælaráðuneytið fyrir tveimur árum. Þar segir að áætla megi, samkvæmt grunnsviðsmynd, að greinin geti skapað tæplega 250 milljarða króna útflutningsverðmæti árið 2032. Þar er landeldi talið leika sífellt stærra hlutverk, þar sem tækniframfarir og aðgengi að hreinni orku skapa sérstöðu fyrir Ísland á alþjóðamarkaði."