Hlutfall sýktrar síldar hefur lítið breyst frá því í haust og er enn mjög hátt, að því er fram kemur í niðurstöðum eftir frumúrvinnslu úr rannsóknaleiðangri sem farinn var 21.-25. febrúar sl. á vegum Hafrannsóknastofnunar til að kanna ástand síldarstofnsins í Breiðafirði.
Markmið rannsóknanna var fyrst og fremst að meta og fylgjast með þróun sýkingarinnar sem herjað hefur á stofninn frá árinu 2008 og valdið miklum afföllum bæði í ungsíld sem og veiðistofninum.
Mest mældist af síld í Kolgrafarfirði, við Hofstaðahraun og við Hrútey, en einnig varð vart við lítilsháttar magn síldar í Grundarfirði. Lítið fannst á öðrum stöðum sem leitað var á í innanverðum Breiðafirði. Niðurstöður bergmálsmælinganna eru mun lægri en mælingin í janúar sýndi og benda niðurstöðurnar til þess að hluti síldarinnar sé farinn út úr Breiðafirði.
Hlutfall sýktra sílda var svipað í torfunum í Kolgrafarfirði og Hofstaðavogi, 43% og 40%, lægri í Hofstaðavogi. Hins vegar var 80% síldarinnar sem veiddist í Grundarfirði sýkt og hlutfall mjög sýktrar síldar var hátt.
Þegar niðurstöður úr leiðöngrum sem farnir hafa verið og sýnum sem tekin voru úr afla veiðiskipa á vertíðinni haustið 2010 og í janúar 2011 eru skoðaðar, sést að hlutfall sýktra sílda breytist lítið á þessu tímabili. Að jafnaði voru um 40% síldanna sýkt, í upphafi vertíðar var hlutfall sýktra um 38% en í síðasta leiðangri var 42% síldanna sem veiddar voru úr torfu sýktar. Á þessum tíma hefur sýkingin hins vegar breyst á þann hátt að hlutfall lítið sýktra sílda fer lækkandi en á sama tíma hefur hlutfall á öðrum stigum sýkingar vaxið.
,,Þessar rannsóknir nú staðfesta fyrri mælingar um mikla sýkingu í stofninum. Eins og fram hefur komið eru engar vísbendingar um annað en að sýkingin valdi dauða hjá þeirri síld sem greinist með sýkingu. Hinsvegar virðist það taka lengri tíma hér en á öðrum hafsvæðum þar sem faraldur vegna Ichthyophonus hefur greinst í síldarstofnum,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.