Á tímabilinu 16. september – 4. október 2015 var farinn leiðangur á R/S Árna Friðrikssyni með það að megin markmiði að bergmálsmæla bæði stærð veiðistofns loðnu og magn ungloðnu. Samhliða könnuðu 4 leitarmenn þéttleika hvala á svæðinu milli Íslands og Grænlands.
Aðstæður til hvalleitar voru erfiðar vegna myrkurs, og veðurs og rekíss. Gert hefur verið mat á fjölda hvala á svæðinu vestan 18°V og sunnan 72°30'N (46724 fermílur). Á því svæði náðist að leita samtals í 27,2 klst í viðunandi skilyrðum (vindur allt að 11 m/s) og voru leitarlínur samtals 280 sjómílur. Samkvæmt hefðbundnum aðferðum reiknaðist heildarfjöldi langreyða á svæðinu 4923 og fjöldi hnúfubaka var metinn 7083 dýr.
Þetta er fyrsta tilraun til að fá raunverulegt mat á fjölda hvala á loðnumiðum hér við land að haustlagi. Hvalatalningar fara yfirleitt fram að sumarlagi, þegar talið er að fjöldinn sé mestur á norðlægum fæðuslóðum eins og hér við land, en auk þess eru talningar utan þess tíma erfiðar vegna veðurs og birtuskilyrða.
Niðurstöðurnar benda til mikillar samþjöppunar hvala á loðnumiðum á þessum árstíma, enda er um að ræða umtalsverðan hluta þess fjölda sem metinn hefur verið að sumarlagi fyrir hnúfubak og langreyði á mun stærra svæði. Ekki var gerð tilraun til að meta nákvæmni matsins, en þó ljóst að nákvæmnin er minni en í hefðbundnum talningum. Líklegra verður að teljast að um vanmat sé að ræða en ofmat, þar sem ekkert náðist að telja norðar vegna veðurs, en þar var talsverð loðna, og ekki tókst að greina alla stórhvali til tegundar. Þá er vitað að töluvert af hnúfubak heldur sig hér við land á sama tíma utan loðnusvæðisins.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.