Stóraukið framboð af makríl á komandi vertíð og pólitískur órói í Austur-Evrópu skapa gríðarlega óvissu um sölu og verðlagningu á makrílafurðum í ár. Þá er einnig óljóst hvaða áhrif innflutningskvótar í Nígeríu muni hafa.

Ef fram heldur sem horfir gæti heildarmakrílaflinn úr NA-Atlantshafi geti aukist úr um 900.000 tonnum á síðasta ári í að minnsta kosti 1.350.000 tonn í ár, kannski meira.

„Heimsmarkaðurinn fyrir makríl úr NA-Atlantshafi hefur verið um 900 þúsund tonn. Ef framboðið stóreykst þarf annað hvort að vinna nýja markaði eða stækka þá markaði sem fyrir eru með því að bjóða hagstæðara verð,“ segir Friðleifur Friðleifsson sölustjóri frystra afurða hjá Iceland Seafood í samtali við Fiskifréttir.

„Í augnablikinu erum við ekkert óskaplega bjartsýnir hvað varðar verðlagningu á makríl fyrir næstu vertíð, sérstaklega á það við um fyrri hluta hennar. Ég hef miklar áhyggjur af því að skortur á geymslurými geti sett menn upp að vegg.“

Sjá nánar viðtal við Friðleif í Fiskifréttum sem komu út í dag.