,,Veiðarnar ganga ágætlega. Við fórum út seinni partinn í gær og tókum fyrsta holið við gaflinn á trollhólfinu. Það er mikil ferð á loðnunni og það er greinilegt að það er töluvert magn að skila sér austur og suður með ströndinni,“ segir Arnþór Hjörleifsson skipstjóri á Lundey NS í viðtali á heimasíðu HB Granda.

Loðnuveiði hefur gengið vel eftir að skipin komust til veiða eftir bræluna sem var um helgina fyrstu daga vikunnar. Skip HB Granda fóru öll frá Vopnafirði í gær og voru Lundey NS og Faxi RE að veiðum út af Héraðsflóanum þar sem leyft er að veiða með flottrolli en Ingunn AK var að nótaveiðum sunnar á veiðisvæðinu. Faxi fór í morgun áleiðis til Vopnafjarðar með um 900 tonna afla og er rætt var við Arnþór nú um miðjan dag var skipið komið með um 800 tonn eftir tvö höl.

,,Það ætti að vera hægt að fá ágætan afla í trollið á næstunni ef ástandið breytist ekki. Loðnan er heldur smærri en sú sem fékkst framan af vertíðinni en hún er samt stór og á vertíðinni í fyrra og hittifyrra hefði hún verið skilgreind sem mjög stór. Hún hefur greinilega verið í góðu fæði síðasta árið,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.